Easy Jet lækkar en hinir hækka

Breska lággjaldaflugfélagið er ódýrasti kosturinn fyrir þá sem ætla til London í byrjun júlí og líka í september. Farmiðar til Kaupmannahafnar og Oslóar eru mun dýrari en til Lundúna.

Það eru vafalítið margir sem eiga enn eftir að bóka sumarferðina. Ef hugurinn stefnir til Lundúna í viku 28 (8. til 14.júlí) þá er lægsta farið, báðar leiðir, hjá Easy Jet og kostar um 39 þúsund krónur. Fyrir tveimur mánuðum kostaði það hins vegar nærri fimmtíu þúsund (sjá hér).

Hjá Wow Air hafa fargjöldin í þessari viku júlímánaðar lítið breyst síðan í apríl en félagið er aðeins dýrara en Easy Jet. Í könnun Túrista í vor var Icelandair ódýrast í júlí en nú hafa fargjöld félagsins hækkað töluvert.

Sambærileg þróun milli ára

Þegar niðurstöður verðkönnunar dagsins eru bornar saman við könnunina sem gerð var á sama tíma í fyrra kemur í ljós að lægstu fargjöld Easy Jet hafa lækkað um fjórðung. Íslensku félögin hafa hins vegar hækkað sínar ferðir til London milli ára.

Sömu sögu er að segja um þróun fargjalda til Kaupmannahafnar eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Osló var ekki með í verðkönnuninni í fyrra og því er ekki til samanburður fyrir hana milli ára.

Í þessum mánaðarlegu verðkönnunum Túrista eru fundin ódýrustu fargjöldin, báðar leiðir, innan ákveðinnar viku og farangurs- og bókunargjöld eru tekin með í reikninginn.

Þróun fargjalda í viku 28 (8.-14. júlí) milli ára þegar bókað er með fjögurra vikna fyrirvara

2013

2012 Breyting
London:
Easy Jet 39.016 kr. 52.143 kr. – 25%
Icelandair 73.620 kr. 58.640 kr. + 26%
Wow Air 42.173 kr. 35.919 kr. + 17%
Kaupmannahöfn:
Icelandair 62.240 kr. 50.530 kr. + 23%
Wow Air 60.903 kr. 45.820 kr. + 33%
Osló:
Icelandair 67.620 kr.
Norwegian 76.420 kr.
SAS 70.456 kr.

Á næstu síðu má sjá þróun verðgjalda í viku 36. Smelltu hér.

HÓTEL: Berðu saman verð á hótelum út um allan heim
BÍLALEIGUBÍLAR: Bókaðu bílaleigubíl fyrir sumarfríið