Fjórðungi fleiri ferðir frá landinu

Farþegaþotur tóku á loft frá Keflavíkurflugvelli að jafnaði tuttugu og sjö sinnum á dag í síðastliðnum mánuði. Tíu flugfélög skiptu ferðunum á milli sín en Icelandair eru langumsvifamesta félagið.

Þessa dagana eykst umferðin um Keflavíkurflugvöll hratt enda aðal ferðamannatíminn að renna upp. Í maí var boðið upp á um 850 áætlunarferðir frá vellinum sem er aukning um fjórðung frá fyrri mánuði samkvæmt talningu Túrista.

Tíu félög héldu úti millilandaflugi héðan og var Icelandair langstærst með átta af hverjum tíu ferðum eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Í júní verður flogið beint frá Keflavík til 45 áfangastaða og þá bætast enn fleiri erlend flugfélög við flóruna.

Vægi fimm umsvifamestu félaganna á Keflavíkurflugvelli í maí, í brottförum talið:

  1. Icelandair: 79%
  2. Wow air: 8,7%
  3. Easy Jet: 4,3%
  4. SAS: 3,2%
  5. Norwegian: 1,5%

Fylgstu með Túrista á Facebook

BÍLALEIGUBÍLL: Rentalcars lofar lægsta verðinu

Mynd: Isavia