Frítt net í stærstu flugstöð Evrópu

Á Heathrow flugvelli í London komast flugfarþegar á netið án þess að borga fyrir. Á Leifsstöð er unnið að því að bjóða upp á álíka þjónustu í sumar.

Frá og með gærdeginum geta þeir sem eiga leið um Heathrow flugvöll í London tengst fríu þráðlausu neti. Notkunin er takmörkuð við 45 mínútur á dag samkvæmt fréttatilkynningu. Heathrow bætist þar með í sífellt stækkandi hóp flugstöðva í Evrópu og N-Ameríku þar sem netið er ókeypis í lengri eða skemmri tíma.

Beðið eftir Leifsstöð

Líkt og Túristi greindi frá fyrr á árinu er boðið upp á ókeypis nettengingu í flestum norrænum flugstöðvum nema í Leifsstöð. Það stendur hins vegar til bóta því forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar tilkynntu í vetur að þeir myndu fylgja í fótspor kollega sinna á Norðurlöndum í sumar. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia, rekstraraðila flugvallarins, þá eru gerðar tilraunir á þjónustunni í flugstöðinni um þessar mundir. Ekki er þó komið á hreint hvenær henni verður hleypt af stokkunum.

TENGDAR GREINAR: Aðeins í Leifsstöð borgar fólk fyrir netsamband

Mynd: Heathrow