Koma í veg fyrir að skjaldbökur seinki flugi

Forsvarsmenn eins stærsta flugvallar Bandaríkjanna ætla að grípa til örvæntingafullra aðgerða til að koma í veg fyrir að skjaldbökur haldi áfram að trufla flugumferð.

Flytja þurfti um þrettán hundruð skjaldbökur af flugbrautunum við John F. Kennedy flugvöll í New York í fyrra með tilheyrandi töfum á flugum. Síðla vors leita skjaldbökurnar, sem halda til í Jamaica flóa, á land með eggin sín og þá verður svæðið í kringum flugvöllinn oft fyrir valinu. Samkvæmt frétt International Herald Tribune á að reisa 1,2 kílómetra langan vegg úr plasti við flóann. Hann verður 20 sentimetra hár og það er talið nægja til að halda skjaldbökunum fjarri.

Icelandair flýgur til John F. Kennedy flugvallar allt árið um kring en hann er sá stærsti vestanhafs þegar kemur að millilandaflugi. Um fimmtíu milljónir farþega fóru um völlinn á síðasta ári.

TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingunni á Krít
HÓTEL: Hér finnur þú ódýr hótel út um allan heim

Mynd: Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna