Undirbúa flug frá fleiri borgum hingað til lands

Forsvarsmenn þriðja stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu íhuga að auka umsvif sín á Íslandi.

Fyrir rúmu ári síðan hóf norska flugfélagið Norwegian að fljúga til Keflavíkur þrisvar í viku frá Osló. Lasse Sandaker-Nielsen, talsmaður félagsins, segir í samtali við Túrista að viðtökurnar hafi verið það góðar að nú séu uppi áform um að fljúga til Íslands frá fleiri borgum. Hann vill þó ekki gefa upp hvaða áfangastaði er um að ræða eða hvenær flugið hefst.

Enn fleiri ferðir til Kaupmannahafnar?

Norwegian er mjög umsvifamikið í flugi frá skandinavísku höfuðborgunum og því má telja líklegt að Kaupmannahöfn og Stokkhólmur séu í spilunum þegar kemur að Íslandsflugi félagsins. Icelandair flýgur til beggja þessara borga og Wow Air til þeirrar dönsku. Í ár fjölgaði Wow Air vikulegum ferðum sínum þangað úr fjórum í tíu. Icelandair býður upp á 13 til 14 vikulegar ferðir á veturna til Kaupmannahafnar en allt að 25 á sumrin. Þessi mikla umferð gæti því aukist enn frekar ef stjórnendur Norwegian ákveða að taka slaginn við íslensku félögin á þessari flugleið. Umferðin til Stokkhólms er mun minni. Flug frá fleiri norskum flugvöllum kann einnig að vera á teikniborðinu hjá stjórnendum Norwegian.

Saxa jafnt og þétt á forskot SAS

Umsvif Norwegian hafa aukist hratt síðustu ár og félagið hefur náð mjög sterkri stöðu í millilanda- og innanlandsflugi í Skandinavíu. Oft á kostnað SAS, stærsta flugfélags Norðurlanda. Bilið á milli þessara tveggja hefur því minnkað ört. Norwegian hóf nýlega að bjóða upp á flug frá Osló og Stokkhólmi til New York og Bangkok og innan skamms bætir félagið Ft. Lauderdale á Flórída við leiðakerfi sitt. Félagið er einnig byrjað að gera út frá Gatwick flugvelli í London og því hugsanlegt að það verði einn af þeim áfangastöðum sem forsvarsmenn þess velja fyrir flug til Íslands.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: Viltu afslátt af gistingu, frían morgunmat eða ókeypis freyðivín upp á herbergi?
HÓTEL: Einföld leit að ódýrum hótelum út um allan heim

Mynd: Norwegian