Nú getum við flogið beint til Rússlands

Skömmu eftir miðnætti flaug vél Icelandair áleiðis til Sankti Pétursborgar. Þar með hófst beint flug félagsins til Rússlands en þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á áætlunarflug þangað frá Íslandi.

Önnur stærsta borg Rússlands, Sankti Pétursborg, þykir ein allra fegursta borg Evrópu. Þar eru margar af glæsilegustu byggingum Rússa og götumynd hennar hefur lítið breyst síðustu aldir. Ferðamannastraumurinn til fæðingabæjar Pútín forseta er því mikill og nú geta íslenskir túristar flogið þangað beint því Icelandair ætlar að bjóða upp á tvær ferðir á viku til Sankti Pétursborgar fram til 17. september.

„Hugmyndin með þessu flugi er að opna okkur og íslenskri ferðaþjónustu nýja leið inn á Rússlandsmarkað, sem er afar stór og vaxandi ferðamannamarkaður. Um leið erum við að bjóða Íslendingum nýjan og spennandi áfangastað í beinu flugi”, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningu frá Icelandair. Þar segir ennfremur að félagið hafi gert samstarfssamning við rússneska flugfélagið Rossiya og það gerir ferðalöngum kleift að bóka áframhaldandi flug innan Rússlands frá Sankti Pétursborg í gegnum Icelandair.

Í dag hófst einnig áætlunarflug Icelandair til Zurich í Sviss en sú borg ásamt Sankti Pétursborg og Anchorage í Alaska eru nýjustu áfangastaðir félagsins.

TENGDAR GREINAR: Rússlandsreisan hefst í Túngötu

Mynd: Ferðamálaráð Sankti Pétursborgar