Öðruvísi festívöl í sumar

Það er varla þverfótandi fyrir lista- og tónleikahátíðum á meginlandi Evrópu í sumar. Túristi fann tvær hátíðir sem stinga í stúf.

Því var nýlega haldið fram að vinsældir matreiðsluþátta og uppskriftabóka væru merki þess að við hefðum það alltof gott og hnignunarskeið væri framundan. Ef þessi svartsýna skandinavíska spá rætist er víst að sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver mun finna fyrir því. Matreiðslubækur hans hafa nefnilega verið áberandi í bókabúðum síðasta áratuginn, sjónvarpsstöðvar slást um þættina hans og mánaðarlega gefur hann út matarrit sem er selt öllum betri blaðasjoppum. Jamie á líka veitingastaði út um víða veröld.

Hann lætur sér þetta hins vegar ekki nægja því í lok sumars stendur hann fyrir heljarinnar matarfestívali á búgarði Alex James, bassaleikara Blur. Sá er reyndar orðinn betur þekktur fyrir ostagerð en bassaleik og smellpassar því í hlutverk aðstoðarkokks Jamie. Hátíðin kallast The Big festival og verður haldin í þriðja sinn þann 31. ágúst í Oxford-skíri á Englandi.

Matur og músík fyrir fjölskyldufólk

Sjónvarpskokkar eru poppstjörnur dagsins í dag og það eru því margir til í að standa við svið þar sem þekktur matgæðingur eldar kræsingar. Á Big festival munu margir af nafntoguðustu kokkum Bretlands troða upp og auðvitað verður hægt að kaupa þar góðan mat til að borða á staðnum eða taka með heim. Til að flýta fyrir meltingunni munu popparar fá fólk til að hoppa með jöfnu millibili og matvönd börn geta varið tímanum á sérstöku svæði fyrir þau yngstu.

Íslenskir matgæðingar sem vilja taka þátt í gleðinni þurfa að borga um 19 þúsund krónur (100 pund) fyrir en börn fá frítt inn. Einnig er hægt að kaupa dagspassa fyrir minna.

Þúsundir rauðhærða í bláum fötum

Sömu helgi og Jamie og Alex trylla lýðinn með matnum sínum í Englandi munu um fimm þúsund eldhærðir einstaklingar heimsækja hollenska bæinn Breda. Hátíð rauðhærðra verður þá haldin í sjöunda sinn og er búist við metþátttöku í ár. Rautt hár er þó ekki skilyrði fyrir þátttöku en að þessu sinni eru gestir beðnir um að mæta í bláum fötum. Það kostar ekkert inn á þessa sérstöku hátíð en í boði verða tónlistaratriði, tískusýningar, skoðunarferðir og hápunkturinn er tilraun til að bæta heimsmetið í fjölda rauðhærðra á einum stað. Fyrra metið er 890 rauðkur og var það sett á hátíðinni fyrir þremur árum síðan. Þann 2. september er stefnt á bætingu á aðaltorginu í Breda.

Greinin birtist fyrst í Fréttatímanum

TILBOÐ: Viltu 10% afslátt af gistingu á Krít?
HÓTEL: Hér finnurðu ódýr hótel út um allan heim