Sparnaðarráð fyrir heimsborgara í Kaupmannahöfn

Þú getur verið á bremsunni og drukkið vatn úr krönunum, keypt öl í sjoppunni og eytt deginum í að skoða Litlu hafmeyjuna. En það er ekki víst að sú dagskrá hljómi spennandi þó gjaldeyrinn sé takmarkaður. Hér eru nokkur ráð fyrir þá sem vilja fá meira úr dvölinni í gömlu höfuðborginni án þess að eyða miklu.

Veitingastaðurinn Vespa er vel staðsettur og vinsæll. Verðlagið er líka flestum að skapi.

Ódýr og góður kvöldmatur

Á veitingastöðunum Vespa og Madklubben í Store Kongensgade hafa gestirnir úr örfáum réttum að velja en í staðinn er verðlagið hagstætt. Fjögurra rétta máltíð kostar um 5000 krónur (250 krónur) og einnig er hægt að panta færri rétti og halda reikningnum í lágmarki. Báðir staðirnar njóta vinsælda meðal Kaupmannahafnarbúa sem vilja fara út að borða á smekklegum stöðum sem servera góðan mat fyrir lítið.

Ókeypis á söfn

Á Ríkislistasafninu, Statens Museum for Kunst, er ekki rukkað fyrir aðgang að föstu sýningunni og því hægt að ganga um þetta fallega safn og skoða brot af því besta sem danskir og norrænir listamenn hafa gert síðustu sjö aldir. Á safninu er einnig nokkur verk eftir þekktustu listamenn Evrópu og svo hanga líka uppi verk eftir drottninguna. Henni er þó lítill greiði gerður með því að vera sett í þennan fína félagsskap. Á sunnudögum kostar ekkert inn á Glyptoteket, við hliðina á Tívolí, sem er sennilega glæsilegasta safn borgarinnar og Þjóðminjasafnið er líka ókeypis.

Gömlu hótelin

Í útjaðri borgarinnar eru nokkur nýleg og ódýr hótel. Gestirnir eyða þó sennilega sparnaðinum í strætómiða og tapa dýrmætum tíma. Í nágrenni við Nýhöfn eru nokkur hótel sem eiga það sammerkt að vera ódýrari en gengur og gerist í þessum hluta borgarinnar og helsta ástæðan fyrir því er sú að herbergin eru orðin soldið slitin. En þau eru snyrtileg og ljómandi kostur fyrir þá sem vilja búa í Frederiksstaden, einu fallegasta hverfi Skandinavíu. Þau helstu eru Christian IV, Maritime og Esplanaden en á því síðastnefnda fá lesendur Túrista ókeypis morgunmat.

Magafylli í hádeginu

Á matarmarkaði Kaupmannahafnarbúa, Torvehallerne við Nörreport, er mikið úrval af góðgæti. Bæði til að borða á staðnum og taka með heim. Ma Poule er einn vinsælasti básinn á markaðnum og þar er fókuserað á franskt hráefni. Í hádeginu fyllist allt við standinn af fólki sem vill fá andasamlokuna víðfrægu. Hún samastendur af vænum skammti af smjörsteiktu andarkjöti, sinnepi og salati í ciabatta brauði. Þó samlokan sé ekki sú ódýrasta í Köben (55 danskar) þá stendur hún með manni allan daginn og sparar fólki millimáltíðirnar.

HÓTEL: Finndu lægsta verðið á gistingu í Köben
TILBOÐ: Frír morgunmatur á ódýru hóteli í Kaupmannahöfn

Mynd: Cofoco