Ódýrasta farið frá flugvellinum

Það er hægt að spara sér töluverðan gjaldeyri með því að nýta sér almenningssamgöngur á ferðalaginu til og frá útlensku flugstöðinni. Túristi fann ódýrasta farið frá nokkrum vinsælum evrópskum flughöfnum.

Berlín – 380 krónur

Það tekur um 20 mínútur að taka lest frá Schönefeld flugvelli og inn í bæ. Fargjaldið er um þrjár evrur (480 krónur) og því lítil ástæða til að borga leigubílstjóra 40 evrur fyrir skutlið. Lestin fer nokkrum sinnum á klukkutíma. Frá Tegel flugvelli er hægt að taka strætisvagna inn í bæ og kostar farið 2,4 evrur (380 krónur).

Kaupmannahöfn – 700 krónur

Á nokkurra mínútna fresti keyra neðanjarðarlestir frá Kastrup flugvelli áleiðis til miðborgarinnar. Ferðalagið til Kongens Nytorv tekur korter og kostar 36 danskar (um 700 íslenskar krónur) fyrir 12 ára og eldri. Miðinn gildir einnig í strætisvagna og aðrar lestir næsta klukkutímann. Þeir sem eiga pantaða gistingu í nágrenni við Ráðhústorgið og aðallestarstöðina ættu að heldur að taka hefðbundna lest í kjallara flugstöðvarinnar en fargjaldið með henni er það sama. Leigubíll inn í bæ kostar sjaldnast undir 250 dönskum (um 5000 kr.).

London – 940 krónur

Það er flogið til þriggja flugvalla í nágrenni við bresku höfuðborgina frá Keflavík. Hraðlestir komast á korteri frá Gatwick og Heathrow en farið með þeim kostar um 20 pund (3700 íslenskar). Þeir sem bóka miða frá Gatwick inn til Lundúna með Southern Railway með góðum fyrirvara fá hins vegar lestarmiða á fimm pund (940 krónur).

Neðanjarðarlestakerfi Lundúna nær út á Heathrow en lestin er um þrjú korter að komast þaðan og inn að Piccadilly Circus. Hún stoppar margoft á leiðinni og það getur orðið þröngt í vagninum. Þetta er því ekki heppilegur kostur fyrir þá sem ferðast með börn og mikinn farangur. Rútur National Express keyra jafnt og þétt á milli flugvallarins og miðborgarinnar og sætið er á 9 pund (um 1900 krónur). Það kostar álíka mikið með Easybus frá Luton flugvelli.

Osló – 2600 krónur

Höfuðborg Noregs er ekki þekkt fyrir lágt verðlag. Það þarf því ekki að koma á óvart að það kostar töluvert að komast af Gardermoen flugvelli. Rúta Flybussen er ódýrasti kosturinn og miðinn er á 125 norskar ef bókað er á netinu. Hraðlestin frá Gardermoen flugvelli kostar um þúsund krónum meira.

París – 1800 krónur

Þú ert tæpan hálftíma á leiðinni inn til Parísar frá Charles de Gaulle flugvelli um borð í lest. Þessi þægilegi ferðamáti er jafnframt sá ódýrasti. Farið er á 9,5 evrur en leigubílstjóri rukkar um 50 evrur (9400 krónur) fyrir skutlið að hótelhurðinni. Það er munar því töluverðu á þessum kostum. Flugrútur Air France eru líka fínn kostur en þó dýrari en lestin.

Í einhverjum tilvikum er hægt að komast ennþá ódýrara frá flugstöðinni með hefðbundnum strætisvögnum en það getur verið flókið ferðalag fyrir aðkomufólk.

Greinin birtist áður í Fréttatímanum.

TILBOÐ: Frír morgunmatur fyrir lesendur Túrista í Kaupmannahöfn

Mynd: Ditte Valente