Óeirðir í Istanbúl fæla ferðamenn frá

Mun færri Danir leita eftir ferðum til höfuðborgar Tyrklands um þessar mundir og sendiráð Svía í borginni varar ferðamenn við að heimsækja ákveðna staði í borginni.

Ólæti og átök hafa geysað á Taksimtorgi í Istanbúl síðan um mánaðarmót. Áhugi Dana á ferðalögum til borgarinnar hefur minnkað töluvert í kjölfarið samkvæmt frétt Jótlandspóstsins. Talsmenn danskra ferðaskrifstofa segja eitthvað um að fólk sem eigi pantaðar ferðir til Istanbúl á næstunni hafa áhyggjur og biðji um flutning á hótel fjarri því svæði sem mótmælendur hafa komið saman. Utanríkisráðuneyti frændþjóðanna vara þó ekki við ferðalögum til borgarinnar en á vef sænska sendiráðsins í borginni eru Svíar beðnir um að halda sig fjarri Taksimtorgi og Istiklal Caddesi, einni vinsælustu ferðamannagötu borgarinnar. Fólk er líka beðið um að sneiða hjá öllum mannfögnuðum þar sem hætta á mótmælum sé mikil í borginni.

Friðsælt við strendurnar

Ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein fyrir Tyrki og í ár er reiknað með að 33 milljónir manna heimsæki landið heim. Stór hluti ferðamannanna heldur sig við baðstrendur landsins og er Antalya vinsælasti áfangastaður sólþyrstra Svía. Sendiráð Svíþjóðar í Tyrklandi segir að mótmælin hafi nær einskorðast við Istanbúl og Ankara en biður ferðamenn í strandbæjunum þó að vera á varðbergi.

Samkvæmt því sem Túristi kemst næst bjóða íslenskar ferðaskrifstofur ekki upp á sólarlandaferðir til Tyrklands í sumar og ekki er flogið beint héðan til Istanbúl.

TILBOÐ: VILTU AFSLÁTT OG INNFLUTNINGSGJÖF?
HÓTEL: BÓKAÐU LÆGSTA VERÐIÐ
NÝJAR GREINAR: Easy Jet lækkar til London en hinir hækka

Mynd: Kevin Felix Polesello/Creative Commons