Ryanair kannar Íslandsflug

Stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu leitar sífellt nýrra tækifæra og íslenskir flugvellir eru inn í myndinni.

„Ryanair hefur átt viðræður við flugvallayfirvöld á Íslandi, en á þessum tímapunkti eru þær aðeins á könnunarstigi“, segir Robin Kiely, talsmaður Ryanair, aðspurður um hvort félagið hyggist bæta Íslandi við leiðakerfi sitt.

En líkt og kom fram hér á síðunni í vikunni þá leitar írska flugfélagið nýrra tækifæra á Norðurlöndum. Robin Kiely segir í samtali við Túrista að lág flugvallagjöld séu forsenda fyrir nýjum áfangastöðum. Að hans sögn er mikil eftirspurn eftir þessu stærsta lággjaldaflugfélagi Evrópu og starfsmenn þess eigi í viðræðum við stjórnendur flugvalla mjög víða.

Ryanair er eitt umsvifamesta flugfélag Evrópu en í fyrra flugu um áttatíu milljónir farþega með félaginu.

Myndu fá frítt hér á landi

Flugfélög sem hefja flug til nýrra staða frá Keflavík fá felld niður lendinga- og farþegagjöld fyrsta veturinn. Þó aðeins ef þau skuldbinda sig til að fljúga hingað í þrjú ár. Fyrsta sumarið nemur afslátturinn 75 prósentum en fer svo lækkandi samkvæmt afsláttarfyrirkomulagi Isavia sem var kynnt í ársbyrjun 2012. Afslátturinn getur numið nokkrum milljónum króna á mánuði samkvæmt útreikningum Túrista.

Á heimasíðu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar segir að flugfélög sem hefji áætlunarflug til flugvalla sem ekki eru hluti af leiðakerfi Keflavíkurflugvallar geti fengið áðurnefnda niðurfellingu á gjöldum. Áfangastaðurinn þarf því ekki að vera nýr, aðeins flugvöllurinn. Ryanair gæti því fengið felld niður öll gjöld fyrsta veturinn sem félagið myndi fljúga hingað frá heimahöfn sinni, Stansted í London. Jafnvel þó farþegar hér á landi geti valið úr beinu flugi til þriggja annarra flugvalla í nágrenni við bresku höfuðborgina. Síðustu ár hefur nefnilega ekki verið flogið héðan til Stansted og flugvöllurinn fellur því undir nýjan áfangastað hjá forsvarsmönnum Keflavíkurflugvallar.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: Viltu afslátt af gistingu eða frían morgunmat?

Mynd: Isavia