Samlokurnar komnar að leiðarlokum hjá Icelandair

Þeir sem ætla að fá sér samloku um borð í vélum Icelandair grípa nú í tómt. Brauð er nefnilega á undanhaldi á nýjasta matseðli félagsins en vinsælasti rétturinn um borð er á sínum stað þó uppistaðan í honum sé hveiti, ger og vatn.
Samlokur hafa lengi verið áberandi á matseðlum flugfélaga. Hjá Icelandair voru þær hins vegar látnar víkja þegar nýjasti matseðill félagsins var útbúinn. Ástæðuna segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi, vera þá að ákveðið hafi verið að draga úr brauðmeti á matseðlinum. Það eru almenn hollustuviðhorf og niðurstöður farþegakannana sem meðal annars ráða ferðinni í þessum málum að hans sögn. Vinsælasti rétturinn um borð, baguette með skinku og osti, verður þó áfram í boði og þeir sem fljúga innan Evrópu geti fengið sér íslenskt smurbrauð með roast beef. Grísk jógúrt með musli er nýjasta viðbótin á matseðlinum og þannig aukið á fjölbreytileikann að sögn Guðjóns.

Samkvæmt athugun Túrista bjóða öll hin flugfélögin, sem fljúga héðan allt árið um kring, upp á hefðbundnar samlokur um borð.