Samfélagsmiðlar

Skerjagarðurinn er innan seilingar

skerjagardurinn Henrik Trygg

Það er fjör við ferjuhafnirnar í Stokkhólmi því margir vilja út í hinn rómaða Skerjagarð. Túristi sigldi út í eyjarnar sem raða sér svo fallega fyrir utan borgina.

Eystrasalt teygir anga sína inn í Stokkhólm og setur svo sterkan svip á byggðina að borgin er stundum kölluð Feneyjar norðursins. Ferjurnar sem flytja heimamenn og túrista út í eyjarnar í Skerjagarðinum sækja farþegana því eiginlega heim að dyrum. Þeir lesendur sem ætla að verja tíma í Stokkhólmi í sumar ættu að nýta sér þessar góður samgöngur og sigla út í hinn stórkostlega Skerjagarð og eyða þar dagsparti eða jafnvel nokkrum dögum.

Rækjubátur um borð

Ferjurnar leggja í hann frá þremur mismunandi stöðum í miðborginni og það er vissara að panta miða með með fyrirvara og mæta tímanlega til að finna réttan ferju. Það myndast líka löng röð við bátana því fólk vill tryggja sér sætin nálægt veitingasölunni þar sem kardemommubollur, pylsur og dýrindis rækjulokur seljast eins og heitar lummur. Það er líka í góðu lagi að taka með sér nesti og spara sér ferð í sjoppuna.

Það er ekki svo dýrt að fá far með út í Skerjagarðinn. Klukkutíma sigling út í Vaxholm, eina vinsælustu eyjuna, kostar til að mynda um 1400 krónur (75 sænskar) með Vaxholmsbolaget. Þar er svo hægt að verja deginum í að skoða bæinn, stóru húsin og borða klassískan „hússmannsmat“ á hótelinu og horfa út á hafið.

Ógnandi kafbátar

Ein vinsælasta eyjan er Sändhamn en þangað fer enginn í dagsferð frá Stokkhólmi því báturinn er rúma þrjá tíma á leiðinni. Hin sjarmerandi Finnhamn er aðeins nær borginni og má mæla sérstaklega með heimsókn þangað fyrir þá sem vilja eyða smá tíma á kyrrlátri eyju með fallegum skógi og fögrum víkum. Á Finnhamn er gist á á farfuglaheimili eða í einföldum bústöðum. Á sumum eyjum eru líka hótel, til dæmis á Utö þar sem fólk ver deginum í að stinga sér ofan í sjóinn af klöppunum við norðurströndina eða sólar sig í sandinum í suðurhlutanum. Utö hefur verið í byggð síðan á sjöttu öld en Rússar léku eyjaskeggja grátt á þeirri átjándu. Það er því ekki að undra að óttinn við innrás frá Sovétríkjunum var landlægur á þessum slóðum lengi. Eyjan Siaröfortet ber þess heldur betur merki því stór hluti hennar er virki sem nota átti til að verjast sóveskum kafbátum á Kaldastríðsárunum. Það er þó afskaplega friðsælt við farfuglaheimili eyjunnar þar sem boðið er upp á einfalda gistingu, fínar veitingar og gufubað í flæðamálinu.

Ferðafélag Svíþjóðar sér um gistinguna á flestum eyjunum og kostar nóttin á farfuglaheimilum um 20 þúsund með morgunmat.

TENGDAR GREINAR: Vegvísir Stokkhólmur

Mynd: Ola Ericsson

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …