Stundvísitölur: 83 prósent brottfara á tíma

klukka

Fjórtán flugfélög héldu úti millilandaflugi frá Keflavíkurflugvelli á fyrri hluta júnímánaðar. Hér er má sjá hversu vel þeim stærstu tókst að halda áætlun.

Stundvísitölur Túrista – fyrri hluta júní 2013

1.-15.júní. Hlutfall brottfara á tíma Meðalseinkun brottfara Hlutfall koma á tíma Meðalseinkun koma Hlutfall ferða á tíma Meðalseinkun alls Fjöldi ferða
Icelandair 82% 6 mín 79% 5 mín 81% 5,5 mín 875
WOW air 93% 4 mín 87% 6 mín 91% 5 mín 174
Easy Jet 94% 0,5 mín 94% 1 mín 94% 1 mín 38
Lufthansa 80% 3,5 mín 93% 0,5 mín 86% 2 mín 29
SAS 83% 2 mín 75% 3 mín 79% 3 mín 24

Um mánaðarmótin hófust áætlunarferðir flugfélaganna Air Berlin, Delta, Fly Niki, German Wings, Lufthansa og Transavia hingað til lands. Fleiri bætast við þegar líður á júní. Umfang Íslandsflugsins hjá þessum félögum er mismikið en flest bjóða þau aðeins upp á næturflug héðan. Icelandair og Wow Air fjölguðu einnig ferðum sínum töluvert í byrjun sumars og því er umferðin um Keflavíkurflugvöll mun meiri nú en hún hefur verið í ár. Í heildina fóru 83% af rúmlega sex hundrað áætlunarferðum í loftið á réttum tíma samkvæmt talningu Túrista. Til samanburðar má geta að í júní 2011 voru 44,5 prósent brottfara á áætlun samkvæmt tölum frá Isavia. Munaði þá mestu um óstundvísi Iceland Express.

Hér að ofan má sjá hvernig fimm umsvifamestu félögin héldu áætlun í flugi sínu til og frá Keflavíkurflugvelli síðustu tvær vikur. Eins og sést er mikill munur á fjölda ferða hjá félögunum, Icelandair flýgur t.a.m. 36 sinnum oftar en SAS frá Keflavík. Ein seinkun hjá því síðarnefnda hefur því mikil áhrif á tölfræðina. Upplýsingarnar eru hins vegar gagnlegar fyrir flugfarþega hér á landi því miklar seinkanir á flugi geta riðlað ferðaplönum og ferið kostnaðarsamar fyrir neytendur.

Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfaratímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru fimmtán mínútur dregnar frá öllum seinkunum. Flug sem tefjast um minna en stundarfjórðung teljast vera á áætlun.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu og bókaðu besta kostinn
TILBOÐ: Ókeypis morgunmatur í Kaupmannahöfn

Mynd: Gilderic/Creative Commons