Baðströnd í borginni

Í þessum stórbæjum geturðu stungið þér í mannhafið eftir strandferð í miðri borginni.

Þú getur flogið beint til þessara sex borga frá Keflavík og auðveldlega sameinað borgar- og sólarlandaferðina.

Barcelona

Önnur fjölmennasta borg Spánar er ljómandi fínn strandbær. Barceloneta hverfið liggur að Miðjarðarhafinu og þar kæla borgarbúa sig niður í  bláum sjónum og njóta dagsins í ró og næði á ströndinni. Það er gott úrval af  matsölustöðum í Barceloneta og svo tekur aðeins hálftíma að rölta á Römbluna fyrir þá sem vilja komast í stórborgarstemningu.

ÓDÝR HÓTEL Í BARCELONA

Berlín

Vötnin og áin Spree sjá um að kæla íbúa Berlínar niður á sumrin. Við Wannsee er að finna stærstu baðströnd Evrópu sem er inn í miðju landi og við Weissensee fer vel um börn. Badeschiff laugin, út á miðri Spree, er líka vinsæl þegar hitinn fer langt yfir tuttugu gráðurnar.

ÓDÝR HÓTEL Í BERLÍN

Kaupmannahöfn

Amager Strand er manngerð strönd, ekki svo langt frá Kastrup flugvelli. Þar er nægt pláss fyrir þá sem vilja sóla sig eða baða í volgum sjónum. Það er minnsta mál að taka metró þangað út eftir. Við Islands brygge er svo eitt af nýjustu kennileitum borgarinnar, Havnebadet. Þar er hægt að stinga sér af 5 metra háum palli eða busla í barnalauginni. Við Klampenborg er líka ljómandi fín strönd, Bellevue. Þar geta fastakúnnar í Epal sest inn á Arne Jacobsen veitingastaðinn á milli boltaleikja í sandinum.

ÓDÝR HÓTEL Í KAUPMANNAHÖFN

Stokkhólmur

Þeir sem heimsækja Feneyjar norðursins á sumrin geta valið úr nokkrum stöðum til að svamla í svalandi vatni. Suðaustur af miðborginni er það hinn græni Långholmen sem lokkar til sín Stokkhólmsbúa á góðviðrisdögum. Á hólmanum er hægt að breiða úr sér á grasinu og fylgjast með alls kyns bátum og skútum sigla framhjá. Í norðurhluta borgarinnar er suðrænu stemninguna að finna við Brunnsviken vatnið sem liggur meðfram hinum ægifagra Haga garði, þar hefur krónprinsessan býr. Við Frescati Haga busla börn og á klöppunum allt í kring sóla þeir sig sem vilja njóta blíðunnar í friði og ró.

ÓDÝR HÓTEL Í STOKKHÓLMI

Sjá næstu baðborgir hér.