Danskar hótelkeðjur í miklum mínus

Það virðist vera vandasamt að reka hótel í Danmörku um þessar mundir.

Tvær af stærstu hótelkeðjum Skandinavíu, Scandic og First hotels, eiga erfiðleikum með reksturinn í Danmörku. Bæði félögin hafa rekið dönsk dótturfélög sín með tapi undanfarin ár og búist er við að sú verði einnig raunin í ár. Reksturinn er hins vegar mun blómlegri í Noregi og Svíþjóð.

Í viðtali við vefmiðilinn Standby segir framkvæmdastjóri First hotels í Danmörku að samkeppnin á hótelmarkaðnum þar í landi sé mjög hörð og gistiverðið þar af leiðandi of lágt. Ein helsta ástæðan er offramboð á gistirými, til dæmis í Kaupmannahöfn, þar sem mörg ný hótel hafa verið opnuð síðustu ár.

Í maí birti Jótlandspósturinn niðurstöður könnunar á rekstri hátt í 400 danskra hótela. Meira en helmingur þeirra var rekinn með tapi á síðasta ári og rúmlega fjórðungur hafði verið í mínus síðustu þrjú ár.

Selja Skt. Petri

Á árunum fyrir hrun dvöldu margir Íslendingar á Hotel Skt. Petri sem er einn af glæsilegri gististöðum borgarinnar. Hótelið hefur verið í eigu First Hotels um árabil en nú hefur önnur norsk hótelkeðja, Choice, tekið það yfir. En ekki er langt síðan að First Hotels keyptu nokkur hótel í Kaupmannahöfn af Choice.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu og bókaðu besta kostinn
TILBOÐ: Ókeypis morgunmatur í Kaupmannahöfn

Mynd: Woco.dk