Ekki pláss fyrir hefðbundinn handfarangur

Það getur verið vandasamt að koma öllum töskunum fyrir í farangurshólfunum í farþegarýminu hjá Easy Jet. Forsvarsmenn félagsins takmarka því stærð taskanna enn frekar.

Það leggjast rúmar sex þúsund krónur ofan á fargjaldið hjá Easy Jet ef farþeginn innritar eina tösku. Þeir eru greinilega margir sem vilja komast hjá þessu aukagjaldi og taka því aðeins með sér handfarangur í ferðalagið. Afleiðingin er sú að það er ekki nóg pláss fyrir allar töskurnar í farangurshólfunum fyrir ofan sætin í vélum Easy Jet. Frá og með deginum í dag hafa forsvarsmenn félagsins því breytt reglunum sem gilda um stærð handfarangurs. Farþegar sem vilja vera alveg vissir um að taskan þeirra fái að vera inn í farangursrýminu verða hér eftir að passa að samanlögð lengd, breidd og hæð hennar sé ekki meira en 110 cm í stað 126 cm áður. Á heimasíðu félagsins kemur fram að þeir sem koma með stærri týpuna eigi ennþá möguleika á að fá að hafa hana hjá sér en aðeins þegar pláss leyfir. Annars verður hún send niður í töskugeymsluna en þá farþegunum að kostnaðarlausu.

Töskugjald algengt hér á landi

Líkt og kom fram hér á síðunni í vor þá rukka átta af þeim fimmtán flugfélögum sem fljúga hingað í sumar fyrir innritaðar töskur. Gjaldið nemur á bilinu 1500 til 3100 krónur. Í Evrópu og Bandaríkjunum hafa nokkur flugfélög takmarkað stærð handfarangursins enn frekar en Easy Jet gerir nú. Forsvarsmenn ungverska flugfélagsins Wizz Air krefja farþega sína um 10 evrur (1600 krónur) aukalega ef handfarangurinn sem ekki kemst undir flugstólana. Sú stefna varð til þess að þingmenn á Evrópuþinginu ætla að beita sér fyrir banni á þess háttar aukagjöld.

Easy Jet flýgur héðan til Edinborgar, London og Manchester.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: Viltu afslátt af gistingu, frían morgunmat eða ókeypis freyðivín upp á herbergi?
HÓTEL: Einföld leit að ódýrum hótelum út um allan heim

Mynd: Mynd: geishaboy500/Creative Commons