Fimm á dag reyna að taka byssu með um borð

Vopnaleitin stendur undir nafni á bandarískum flugvöllum. Það sem af er ári hafa öryggisverðir gripið nærri þriðjungi fleiri vopnaða farþega en í fyrra. Yfirvöld skilja hvorki upp né niður í þessari þróun. Ekki fást upplýsingar um hversu margir hafa verið gómaðir með byssu hér á landi.

Á þessu ári hefur verið lagt hald á 894 byssur á bandarískum flugstöðvum. Þetta er 30 prósent fleiri vopn en voru gerð upptæk á fyrstu sex mánuðum síðasta árs. Samkvæmt frétt AP er algengt að byssurnar séu hlaðnar. Viðmælandi fréttastofunnar segir að margir Bandaríkjamenn geti ekki hugsað sér að fara út fyrir hússins dyr nema með vopn innanklæða og því reyni fólk að taka þau með í ferðalagið. Flestir þeirra sem eru stoppaðir segjast hafa pakkað byssunni óviljandi. Fæstir þurfa að taka út refsingu fyrir að reyna að smygla vopnum um borð þar sem lög um vopnaburð eru víst mjög frjálsleg í þeim ríkjum þar sem flestir reyna að ferðast með byssu.

Vandamál í suðvestrinu

JFK flugvöllur í New York er sá stærsti í Bandaríkjunum þegar kemur að millilandaflugi. Í frétt AP kemur fram að þar hafi aðeins verið lagt hald á eina byssu í fyrra. Hins vegar voru 96 farþegar á Atlanta flugvelli gripnir og hvergi er vandamálið meira eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan.

Hér voru flest skotvopn gerð upptæk í fyrra

  1. Hartsfield-Jackson í Atlanta, 96 byssur.
  2. Fort Worth International í Dallas, 80 byssur
  3. Sky Harbor í Phoenix, 54 byssur.
  4. George Bush International í Houston, 52 byssur.
  5. Lauderdale-Hollywood International í Florida, 42 byssur.

Engar upplýsingar frá Keflavíkurflugvelli

Í frétt danska blaðsins Politiken um byssuglaða bandaríska flugfarþega kemur fram að enginn hafi verið gripinn með skotvopn í vopnahliðinu á Kaupmannahafnarflugvelli í fyrra. Aðeins fundust þar tvær „paintball“ byssur í innrituðum farangri. Túristi leitaði eftir sambærilegum upplýsingum hjá Isavia en þar á bæ eru menn ekki til í að veita jafn ítarlegar upplýsingar og kollegar þeirra í Bandaríkjunum og Danmörku. Er vísað til reglugerðar um flugvernd því til stuðnings. Það virðast því gilda strangari reglur á Íslandi því eins og sjá má hér að ofan þá eru flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum tilbúin til að upplýsa nákvæmlega hversu mörg skotvopn voru gerð upptæk á hverjum flugvelli fyrir sig.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: Viltu afslátt af gistingu, frían morgunmat eða ókeypis freyðivín upp á herbergi?
HÓTEL: Einföld leit að ódýrum hótelum út um allan heim

Mynd: Tsa.gov