Fjögurra ára bið eftir nýju flugstöðinni

Það voru blikur á lofti í Berlín í vor þegar stjórnendur nýja Brandenburg flugvallarins tilkynntu að þeir kynnu að taka hluta hans í notkun fljótlega. Þessum áformum hefur nú verið sópað út af borðinu.

Í dag lenda farþegar á leið til Berlínar á Schönefeld flugvelli í austurhlutanum eða Tegel. Og það fer ekki fram hjá þeim sem eiga leið um þessar flugstöðvar að þær eru báðar slitnir og of litlar. Upphaflega stóð til að þeim yrði lokað haustið 2010 þegar opna átti hinn glæsilega Brandenburg flugvöll í nágrenni við Schönefeld. Vígsla hans hefur hins vegar dregist og samkvæmt nýjustu fréttum er ekki von á því að hann verði tekinn í notkun fyrr en seint á næsta ári eða í byrjun 2015. Í maí viðraði hins vegar framkvæmdastjóri Brandenburg þá hugmynd að hleypa Easy Jet inn í flugstöðina í haust. Úr því verður ekki.

Fullbyggður en ófullkominn

Það kom ekki ljós fyrr en búið var að reisa nýju flugstöðina að hún var gölluð. Til dæmis er eldvarnarkerfi hennar ófullnægjandi. Kostnaðurinn við seinaganginn og breytingarnar eru gífurlegur og er talið að völlurinn muni kosta hátt í fimm milljarða evra þegar hann verður loksins klár. Það er um fjórum sinnum meira en upphaflega stóð til að verja í verkefnið.

Wow Air notast við Schönefeld í flugi sínu til Berlínar en þeir sem fljúga frá Keflavík til þýsku höfuðborgarinnar með Airberlin og Lufthansa lenda við Tegel. Þegar Brandenburg verður tekinn í notkun verður hann þriðji stærsti flugvöllur Þýskalands, í farþegum talið, á eftir Frankfurt og Munchen.

TILBOÐ Í BERLÍN: Viltu 5% afslátt eða frítt freyðivín?

Mynd: Brandenburg