Gardermoen er liðin tíð

Aðalflugvöllurinn í Osló heitir ekki lengur Gardermoen. Nafnbreytingin kom forsvarsmönnum flugfélaga í opna skjöldu.

Icelandair, Norwegian og SAS halda öll uppi áætlunarferðum héðan til höfuðborgar Noregs. Öll þrjú lenda á flugvellinum sem kenndur hefur verið við Gardermoen og liggur um sextíu kílómetra norður af miðborg Oslóar. Flugmálayfirvöld í Noregi ákváðu fyrr í þessum mánuði að breyta nafni Gardermoen og heitir hann hér eftir aðeins Oslóarflugvöllur, eða Oslo lufthavn. Talskona vallarins segir í viðtali við Aftenposten að nafnbreytingin sé meðal annars tilkomin vegna þess ruglings sem gætt hefur um nafnið. Hún tekur sem dæmi að tvö umsvifamestu flugfélögin á vellinum, SAS og Norwegian, notist við mismunandi útgáfur af heiti hans.

Samkvæmt frétt Aftenposten kom þessi nafnbreyting forsvarsmönnum flugfélaganna í opna skjöldu, til dæmis heyrði upplýsingafulltrúi Norwegian fyrst af henni þegar blaðamaður Aftenposten hafði samband til að fá álit hans á henni.

Eins og kom fram hér á síðunni nýverið er Oslóarflugvöllur sá annar stærsti á Norðurlöndum.

ÓDÝR HÓTEL Í NOREGI

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: 10% afsláttur í París

Mynd: Espen Solli