Lofa ókeypis bjór ef það rignir

Það er mýta að það sé stanslaust úrhelli á regntímanum á þeim svæðum sem ganga í gegnum þannig veðurtímabil. Forsvarsmenn ferðaskrifstofu í SA-Asíu eru því óhræddir við að bjóða viðskiptavinum sínum frítt öl í hvert skipti sem það kemur steypiregn næstu mánuði.

Í löndunum í Suðaustur-Asíu fækkar túristum hratt þegar tími rigninga gengur í garð. Hótel og veitingastaðir lækka þá verðið og þeir sem láta votviðrið ekki slá sig út af laginu komast í ódýrt frí og geta notið vinsælla ferðamannastaða í meira næði en mögulegt er á háannatímanum.

Ferðaskrifstofan Khiri Travel sérhæfir sig í ferðum til landa eins og Víetnam, Kambódíu og Búrma og þar á bæ finna menn fyrir lítilli eftirspurn um þessar mundir nú þegar regntíminn er að ganga í garð. Stjórnendur skrifstofunnar hafa því brugðið á það ráð að bjóða öllum þeim sem kaupa ferðir til Búrma næstu mánuði upp á tvo fría bjóra þá daga sem það rignir samfellt í meira en tíu mínútur.

Á heimasíðu Khiri Travel kemur fram að það eru að jafnaði tíu rigningadagar á mánuði á því svæði í Búrma sem ferðinni er heitið til. Það er því ekki líklegt að bjórinn muni flæða í ferðunum. En ef það gerist þá geta viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar valið á milli tveggja Mandalay bjóra eða ótakmarkaðs magns af gosi á meðan þeir bíða eftir að það stytti upp. Tilboðið gildir fram í lok september.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: Viltu afslátt af gistingu, frían morgunmat eða ókeypis freyðivín upp á herbergi?
HÓTEL: Einföld leit að ódýrum hótelum út um allan heim

Mynd: Mynd: abrinsky/Creative Commons