Mínúta á Facebook kostar nærri þúsund krónur

Það getur verið dýrt að fara á netið í farsímanum á ferðalagi í Bandaríkjunum. Verðskrá símafyrirtækjanna er mjög mismunandi og verðmunurinn allt að sautjánfaldur.

Fyrir tilstuðlan Evrópusambandsins lækkar kostnaður við notkun farsíma innan álfunnar ár frá ári. Íslenskir túristar njóta góðs af því líkt og fjallað var um hér á síðunni nýlega. Þeir sem halda í ferðalag til Bandaríkjanna og nota símann til að fara á netið eiga von á háum símareikningi í kjölfarið samkvæmt útreikningum Túrista. Þannig kostar það hátt í sex þúsund krónur að skoða Facebook í sex mínútur og tíu mínútur á netinu kostar mörg þúsund krónur svo dæmi séu tekin.

Sautjánfaldur verðmunur milli fyrirtækja

Kostnaðurinn er reyndar mismikill eftir því við hvaða símafyrirtæki er skipt. Því eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá borga viðskiptavinir Tals mest fyrir gagnanotkunina í Bandaríkjunum eða 2690 krónur fyrir eitt megabæti. Það er sautján sinnum hærra verð en þeir sem skipta við Hringdu borga. Þar kostar eitt megabæti 149,02 krónur. Einhver munur kann að vera á hversu gott samband félögin bjóða upp á vestanhafs.

Hafa ber í huga að símafyrirtækin eru með átta til tíu þúsund króna þak á niðurhali í útlöndum en fólk getur óskað eftir hærra hámarki. En eins og sést á töflunni þá eru íslenskir túristar fljótir að ná þakinu.

Kostnaður við að nota netið í íslenskum síma í Bandaríkjunum:

Gagnanotkun* Hringdu Nova Síminn Tal Vodafone
Netið: 10 mínútur 5 Mb 745 kr. 3.954 kr. 7.450 kr. 13.450 kr. 9.978 kr.
Facebook: 6 mínútur 2 Mb 298 kr. 1.581 kr. 2.980 kr. 5.380 kr. 3.991 kr.
Tölvupóstur: 20 stk án viðhengja 0,5 Mb 75 kr. 395 kr. 745 kr. 1.345 kr. 998 kr.
You Tube: 4 mín 11 Mb 1.639 kr. 8.698 kr. 16.390 kr. 29.590 kr. 21.951 kr.
Instagram: 5 myndir 1 Mb 149 kr. 791 kr. 1.490 kr. 2.690 kr. 1.996 kr.
Google Maps: 10 mín 6 Mb 894 kr. 4.744 kr. 8.940 kr. 16.140 kr. 11.973 kr.
*fjöldi megabæta er byggður á upplýsingum af heimasíðum nokkurra erlendra símafyrirtækja. Þau setja öll fyrirvara við útreikningana og segja þá aðeins til viðmiðunar.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu og bókaðu besta kostinn
TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingu á Krít