Evrópusambandið heldur áfram að lækka hámarksverð á símnotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins. Smávegis netráp í útlöndum lækkar um hundruði króna.
Íslenskur ferðamaður sem lenti í París í gær og nýtti símann sinn til að finna réttu leiðina á hótelið hefur borgað um 850 krónur fyrir að nota kortaþjónustu Google í 10 mínútur. Í dag kostar samskonar notkun 531 krónu. Verðmunurinn er 38 prósent og ástæðan fyrir lækkuninni er sú að á miðnætti gengu í gildi ný hámarksverð Evrópusambandsins á símnotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Síðustu ár hefur ESB sett stiglækkandi hámark á þau verð sem fjarskiptafyrirtæki geta krafið viðskiptavini sína um fyrir farsímanotkun innan aðildarlandanna. Hámarksverðið gildir ekki í öðrum heimshlutum og nú er svo komið að það er margfalt ódýrara fyrir íslenska símnotendur að nota símtækin í Evrópu en í N-Ameríku. Áttaviltur Íslendingur í Washington borgar því allt að 16 þúsund krónur fyrir að nota Google Maps í 10 mínútur eða um þrjátíu sinnum meira en í Evrópu. Verðskrá íslensku fyrirtækjanna er hins vegar mjög misjöfn þegar kemur að símnotkun í N-Ameríku og til dæmis borga viðskiptavinir Hringdu sama verð í Evrópu og í Bandaríkjunum.
Líka ódýrara að hringja
Það var ekki aðeins prísinn á gagnanotkun sem lækkaði á miðnætti því nú er fimmtungi ódýrara að hringja heim frá meginlandi Evrópu.
Samkvæmt vef Póst- og fjarskiptastofnunar eru nýju hámarksverðin þessi:
Hringja | Svara | Sent SMS | Taka á móti SMS | Gagnanotkun |
47,63 kr/mín | 13,89 kr/mín | 15,87 kr. | frítt | 89.3/MB |
Fylgstu með Túrista á Facebook
TILBOÐ: Viltu afslátt af gistingu, frían morgunmat eða ókeypis freyðivín upp á herbergi?
HÓTEL: Einföld leit að ódýrum hótelum út um allan heim
Mynd: Túristi