Ódýrustu fargjöldin hafa hækkað mikið milli ára

Farmiðar til London og Kaupmannahafnar í byrjun ágúst kosta mun meira nú en á síðasta ári hjá Icelandair og Wow Air. Easy Jet býður hins vegar lægra verð.

Fyrir nákvæmlega ári síðan kostaði ódýrasta farið til Kaupmannahafnar, í annarri viku ágústmánaðar, 32.800 krónur hjá Iceland Express. Í dag er það Wow Air sem býður lægst í þessari viku en verðið er rúmum þrjátíu þúsund krónum hærra en það var í fyrra.

Hjá Wow Air hefur ódýrasti farseðillinn hækkað um 80 prósent milli ára þegar farangursgjöld eru tekin með í reikninginn. Hjá Icelandair nemur hækkunin tæpum helmingi eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Lægstu fargjöld íslensku félaganna til London á tímabilinu 5. til 11. ágúst hafa hækkað um allt að fimmtung frá í fyrra en hjá Easy Jet hafa þau lækkað um fimm af hundraði.

Ódýrustu farmiðar breska félagsins til Lundúna í byrjun október hafa hins vegar hækkað á milli ára. Þá býður Wow Air lægsta farið til London og Kaupmannahafnar en SAS er ódýrast ef ferðinni er heitið til Oslóar (sjá hér).

Þróun fargjalda í viku 32 (5.-11. ágúst) milli ára þegar bókað er með fjögurra vikna fyrirvara

2013

2012 Breyting
London:
Easy Jet 44.612 kr. 47.016 kr. – 5,1%
Icelandair 65.820 kr. 54.990 kr. + 19,7%
Wow Air 45.173 kr. 38.999 kr. + 15,8%
Kaupmannahöfn:
Icelandair 68.570 kr. 46.850 kr. + 46,4%
Wow Air 62.903 kr. 34.860 kr. + 80,4%
Osló:
Icelandair 56.380 kr.
Norwegian 54.029 kr.
SAS 61.606 kr.

Túristi hefur gert mánaðarlegar verðkannanir á flugi til Kaupmannahafnar og London í rúmt ár en Osló bættist við nýlega. Það er því ekki til samanburður á fargjöldum til Osló milli ára. Í verðkönnununum eru fundin ódýrustu fargjöldin, báðar leiðir, innan ákveðinnar viku og farangurs- og bókunargjöld eru tekin með í reikninginn.

Á næstu síðu má sjá þróun verðgjalda í viku 40 og hvaða félög bjóða lægstu fargjöldin til Kaupmannahafnar, London og Osló í byrjun október. Smelltu hér.

HÓTEL: Berðu saman verð á ódýrum hótelum út um allan heim
BÍLALEIGUBÍLAR: Bókaðu bílaleigubíl fyrir sumarfríið