Ókeypis í dýru borginni

Urmull af vel launuðum kontoristum og sterkur svissneskur franki eru meðal ástæðna þess að Zurich vermir alla jafna eitt af efstu sætunum yfir dýrustu ferðamannastaði heims. Hér eru fimm hlutir sem ekkert kostar að gera í Zurich.

1. Sundsprettur í Limmat

Í stærstu borg Sviss þykir sjálfsagt að kæla sig niður í öllu því vatni sem rennur í gegnum miðborgina. Fjöldi baðklúbba er þar að finna og þeir rukka fyrir aðstöðuna. Við Latten, skammt frá aðallestarstöðinni, er að finna 400 metra sundlaugarbakka, stökkbretti og blakvelli sem borgaryfirvöld reka og það kostar ekkert inn á svæðið.

2. Útsýnispallar í gamla bænum

Háhýsi eru á bannlista í Zurich og það þarf því ekki að fara mjög hátt til að fá fínasta útsýni yfir borgina. Á Lindenhof safnast saman tveir ólíkir hópar; þeir sem hafa gaman að því að tefla undir berum himni og ferðamenn sem vilja dást af útsýninu yfir á austurbakka Limmat árinnar og upp á háskólabrekkuna.

Við Uraniastrasse 6 er gömul stjörnuathugunarstöð sem hýsir í dag bar. Útsýnið þaðan yfir gömlu byggðina og út að vatni er frábært. Það er óþarfi að versla á barnum þó vissulega geti það verið freistandi.

3. Chagall og Giacometti

Listsköpun og skemmtun var æðstuprestum í Zurich ekki að skapi eftir siðaskiptin. Fagurmálaðir veggir kirkna voru hreinsaðir og íbúarnir þurftu að stelast út fyrir borgarmúrana til að lyfta sér upp. Eftir að klerkarnir lærðu að slaka á voru þekktir listamenn fengnir til að lífga upp á guðshúsin og í Fraumunster kirkjunni er að finna litríka glugga málaða af Marc Chagall og Augusto Giacometti. Á löggustöðunni við Bahnhofquai 3 er stór salur málaður af þeim síðarnefnda. Aðeins þarf að sýna vegabréf í afgreiðslunni til að fá að virða fyrir sér þennan leyndardómsfulla sal.

4. Hjólað eftir bökkunum

Bílaumferð er frekar lítil í miðborg Zurich og meðfram ám og vötnum liggja stígar. Það er því kjörið að hjóla um og á nokkrum stöðum í borginni er hægt að fá lánað hjól án endurgjalds. Aðeins þarf að leggja fram 20 franka tryggingu. Það er tilvalið að byrja túrinn á því að fá hjól á Bellevue torginu og hjóla meðfram Limmat ánni út að Zürich-West, gamla iðnarhverfinu sem nú iðar að lífi. Einnig er hægt að fá hjól á aðallestarstöðinni en hjólaleigurnar eru merktar Züri rollt og eru opnar frá morgni og fram á kvöld alla daga.

5. Frítt að drekka

Það eru um tólf hundruð vatnsbrunnar í Zurich og vatnið í þeim er kristaltært og kalt. Það er því algjör óþarfi að kaupa vatn í næstu sjoppu.

Zurich einn af nýju áfangastöðum Icelandair en Wow Air flaug þangað líka í fyrra.

ÓDÝR HÓTEL Í ZURICH

NÝJAR GREINAR: Borgar sig að greiða aukalega fyrir sætið?

Greinin birtist áður í Fréttatímanum
Myndir: Zuerich.com