Passaðu þig á sektum á meginlandinu

Löngu eftir að komið er heim úr fríinu getur borist í pósti sekt fyrir umferðarlagabrot í útlöndum. Upphæðirnar eru mjög mismunandi eftir löndum.

Ökumenn bílaleigubíla sleppa ekki við greiða sektir vegna hraðaksturs eða annarra umferðalagabrota. Stöðumælabrot enda líka í höndunum á leigutaka. Jafnvel mörgum mánuðum eftir að heim er komið. Bílaleigufyrirtækin bæta líka mörg hver umsýslugjaldi ofan á sektina sjálfa. Það er því vissara að fylgja reglunum því myndavélar leynast ósjaldan við hraðbrautir og umferðarljós.

Rauðu ljósin í Noregi eru rándýr

Það eru margir Íslendingar á ferðalagi á Spáni þessar vikurnar og væntanlega ófáir sem leigja sér bíl hluta að tímanum. Sá sem verður uppvís að því að keyra allt að 20 km á klst. yfir hámarkshraða þarf að borga sekt upp á 100 evrur (ca. 16.000 krónur) til spænskra yfirvalda. Gjaldið fyrir að fara yfir á rauðu á Spáni er tvöfalt hærra. Þeir sem gerast sekir um slíkt í Noregi borga hins vegar um hundrað og tíu þúsund krónur í refsingu. Samkvæmt lista ADAC, félags bifreiðaeigenda í Þýskalandi, þá eru Norðmenn með hæstu sektirnar í Evrópu. Í austurhluta álfunnar eru yfirvöld almennt ekki eins refsiglöð.

Á töflunni hér fyrir neðan má sjá hvað umferðalagabrot kosta í nokkrum af þeim löndum sem íslenskir ferðamenn fjölmenna til.

Land Hraðakstur (1-20km/klst) Yfir á rauðu Bílastæðasekt Tala í farsíma undir akstri
Bretland 70€ 70€ 35€ 75€
Danmörk 135€ 270€ 70€ 200€
Frakkland 135€ 135€ 15€ 135€
Ítalía 170€ 170€ 40€ 155€
Noregur 480€ 700€ 100€ 175€
Spánn 100€ 200€ 200€ 200€
Þýskaland 35€ 90-320€ 10-70€ 40€

Bannað að keyra í miðborg

Sumar umferðarreglur er auðvelt að brjóta. Á Ítalíu er t.a.m. algengt að ekki megi keyra í miðbæjum og þá eru sett upp skilti sem á stendur „Zona Traffico Limitato – ZTL“. Það þýðir að aðeins þeir sem hafa fengið sérstakt leyfi mega keyra á svæðinu. Þessi skilti eru ekki alltaf áberandi og því algengt að ferðamenn keyri inn á bannsvæði. Myndavélar taka myndir af öllum bílum sem þangað villast og bílstjóranna bíða sektir upp á 15 til 18 þúsund krónur (80 til 100 evrur).

BÍLALEIGA: Gerðu verðsamanburð á bílaleigubílum út um allan heim

Mynd: Matthew Kenwrick/Creative Commons