Stundvísitölur: Töluvert um langar seinkanir

klukka

Farþegar á Keflavíkurflugvelli þurftu að sýna meiri biðlund síðustu tvær vikur en þeir hafa þurft í ár.

Nokkuð var um að ferðir til og frá Keflavíkurflugvelli tefðust um nokkra klukkutíma seinni hluta júnímánaðar. En það sem af er ári hafa þannig seinkanir verið fátíðar. Meðaltöf á flugum Icelandair var 10 mínútur en á sama tíma í fyrra var hún 2 mínútur. Hlutfall ferða sem kom og fór á réttum tíma var nokkru lægra núna hjá bæði Icelandair og Wow Air en í fyrra.

Túristi hefur tekið saman stundvísi allra þeirra fimmtán félaga sem halda uppi áætlunarflugi frá Keflavík en hér fyrir neðan eru aðeins birtar niðurstöður þeirra þriggja félaga sem eru umsvifamest. Icelandair og Wow Air standa undir 85 prósent af ferðunum líkt og kom fram hér á síðunni í gær. Íslandsflug hinna félaganna er það lítið að það er á mörkunum að hægt sé að útbúa stundvísitölur fyrir þau, ein seinkun hefur þá mjög mikil áhrif á niðurstöðuna. Þess má þó geta að flest félögin héldu áætlun í meira en 80 prósent tilvika og tafirnar voru alla jafna stuttar. Farþegar Lufthansa og Delta þurftu þó að sætta sig við nokkurra klukkutíma seinkanir í einu tilviki. Hjá Icelandair töfðust einnig nokkrar ferðir um lengri tíma en ella.

Stundvísitölur Túrista – seinni hluta júní 2013

16.-30.júní. Hlutfall brottfara á tíma Meðalseinkun brottfara Hlutfall koma á tíma Meðalseinkun koma Hlutfall ferða á tíma Meðalseinkun alls Fjöldi ferða
Icelandair 78% 11 mín 75% 8 mín 76% 10 mín 925
WOW air 92% 2 mín 81% 3,5 mín 87% 3 mín 216
Easy Jet 94% 0 mín 88% 0,5 mín 91% 0,5 mín 36

Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfarartímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru fimmtán mínútur dregnar frá öllum seinkunum. Flug sem tefjast um minna en stundarfjórðung teljast vera á áætlun.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu og bókaðu besta kostinn
TILBOÐ: Ókeypis morgunmatur í Kaupmannahöfn

Mynd: Gilderic/Creative Commons