Það besta í Danmörku

Frændur okkar Danir eru iðnir við að segja til um hvað þeim þykir best og fallegast á heimavelli. Túristi rýndi í vinsældalistana og fann nokkra sigurvegara sem ferðamenn í Danmörku gætu haft ánægju af að kynnast.

Besta baðströnd Danmerkur

Tuttugu kílómetrar af hvítum og hreinum sandi eru aðalsmerki baðstrandarinnar við Marielyst á Falster. Lesendur  Berlingske Tidende völdu hana nýverið bestu sólarströnd Danmerkur og þetta er ekki í fyrsta skipti sem Marielyst fær flest atkvæði í þessari árlegu kosningu. Fjöldi sumarhúsa er á leigu við þessa rómuðu strönd og þangað má komast á tæpum tveimur tímum með lest og strætó frá Kaupmannahöfn.

Besta kaffihúsið

Matgæðingur dagblaðsins Politiken átti ekki til orð til að lýsa hrifningu sinni á þessu litla franska kaffihúsi sem opnaði nýverið í Hyskenstræde, einni af hliðargötum Striksins. Lesendur blaðsins eru sammála um að staðurinn eigi lofið skilið og völdu Frenchy besta kaffihús Kaupmannahafnar í ár. Á matseðlinum eru franskir klassíkerar eins og Crêpe, Tartine og Croque Monsieur og síðan er gott úrval af frönsku sætabrauði.

Fallegasti smábærinn

Íbúar Borgundarhólms tala dönsku með sjarmerandi hreim og þeim þykir reyktur matur góður. Og þá sérstaklega síld. Í byrjun sumars voru kunngjörð úrslit í vali á fallegasta bæjarfélagi Danmerkur og sigurvegarinn var hinn smái Svaneke á norðausturströnd Borgundarhólms. Fimmtán þúsund atkvæði bárust í kjörinu og fékk Svaneke rúmlega fimmta hvert atkvæði.

Besti ölbarinn

Það var alltaf fullt út úr dyrum á knæpu Mikkels, bruggara og stærðfræðings, á Vesturbrú í Kaupmannahöfn. Til að létta á pressunni opnaði hann nýverið annan og mun stærri bar í kjallaranum á Stefansgade 35 á Norðurbrú. Þar er að finna bjóra úr brugghúsi Mikkel og félaga og líka sérvalið öl frá nokkrum minni framleiðendum, dönskum og útlenskum. Mikkeller og friends var valinn krá ársins í vor þegar Aok.dk veitti lesendaverðlaun sín.

Hótelið með hæstu einkunina

Notendur vefsíðunnar Tripadvisor eru duglegir við að leggja mat sit á gististaði út um allan heim. Í Kaupmannahöfn er það lúxushótelið Nimb í Tívolígarðinum sem fær bestu dómana. En þar sem þess háttar flottheit eru ekki á færi margra þá flöggum við heldur hótelinu sem er í örðu sæti. Það opnaði í fyrra og heitir Andersen hotel og er við Helgolandsgade bakvið aðallestarstöðina. Þetta er kannski ekki huggulegasti hluti borgarinnar því ennþá sækist ógæfufólk í þennan hluta borgarinnar enda stutt í hina vafasömu Istedgade frá hótelinu.

BÍLALEIGA: Auðveld leit að hagstæðasta bílnum
HÓTEL: Ódýr hótel út um allan heim

Greinin birtist áður í Fréttatímaum
Myndir: Denmark Media Center og Mikkeller