Telja Danmörku ekki vera peninganna virði

Prísarnir eru of háir og þjónustan léleg. Þetta eru niðurstöður könnunar sem gerð var meðal túrista í Danmörku. Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar þar í landi eru skúffaðir og vilja ráðast í átak til að koma í veg fyrir hrun í geiranum.

Fyrir tólf árum síðan var verðlagið í Danmörku um 30 prósentum hærra en almennt gerist í Evrópusambandinu. Núna er munurinn 42 prósent og mörgum túristum þykir maturinn, þjónustan og ferðamannastaðirnir í landinu ekki standa undir háa verðinu. Þetta kemur fram í frétt Business.dk þar sem fjallað er um nýja skýrslu um ástandið í ferðaþjónustu Danmerkur. Skýrslan kemur í kjölfar falleinkunnar Dana hvað gestrisni varðar í samantekt World Economic Forum í vor sem kallaði á töluverða naflaskoðun meðal ferðamálafrömuða. Íslendingar fengu hins vegar hæstu einkunn.

Vilja lægri skatta og gjöld

Frá aldarmótum hefur gistnóttum á dönskum hótelum fækkað um tvo af hundraði en á sama tíma hefur þeim fjölgað um rúm fimm prósent í allri Evrópu. Danir eru því að dragast aftur út úr og í haust ætlar ríkisstjórnin að leggja fram áætlun um hvernig hægt er að snúa vörn í sókn. Innan ferðaþjónustunnar vonast fólk til þess að áætlunin feli í sér lægri virðisaukaskatt og umhverfisgjöld. Í frétt Business.dk kemur fram að ef Dönum tekst að fjölga ferðamönnum álíka mikið og nágrönnum þeirra hefur tekist þá verða til allt að sex þúsund ný störf í landinu.

Höfundar skýrslunnar eru þó ekki vissir um skattabreytingar dugi til og mæla með að á næstu fimm árum verði 10.000 manns úr ferðaþjónustunni sendir í endurmenntun til að læra hvernig á að veita góða þjónustu.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: Viltu afslátt af gistingu, frían morgunmat eða ókeypis freyðivín upp á herbergi?
HÓTEL: Einföld leit að ódýrum hótelum út um allan heim

Mynd: Copenhagen Media Center