Tveir dagar í Edinborg með kræsingum og kennileitum

Í höfuðborg Skotlands er nánast allt í göngufæri. Hér er tillaga að rölti milli þekktustu staða borgarinnar með nokkrum góðum nestisstoppum.

Dagur 1 – Gamli bærinn

Kaffið fyrir kastalaheimsókn
Það úir og grúir af keðjukaffihúsum í Edinborg en eigendur Brew Lab (6 College Street) hafa meiri áhuga á góðu kaffi en útþenslu.

Skyldustoppið
Edinborgarkastali er helsta kennileiti borgarinnar og þeir sem mæta með fyrri skipunum sleppa við hjarðir af ferðamönnum. Hliðin opna klukkan hálftíu.

Royal Mile
Minjagripabúðir standa hlið við hlið á Royal Mile, götunum sem liggja í beinni línu frá kastalanum og niður að þinghúsinu. Það er engu að síður gaman að rölta eftir þessu gamla aðalstræti og þræða verslunargöturnar sem liggja þar fyrir neðan, t.d. Victoria Street og Haymarket.  Þinghúsið er opið almenningi alla daga nema sunnudaga og það kostar ekkert inn. Hollyroodhouse slottið er lokað yfir hásumarið þegar Elísabetar II. flytur inn en annars geta ferðamenn ráfað þar um.

Calton Hill
Þessi hóll við austurenda miðborgarinnar er einn elsti almenningsgarður Breta. Héðan er útsýnið einstakt yfir gamla og nýja bæinn og út til sjávarsíðunnar. Á toppi hæðarinnar er National Monument sem er sennilega þekktasta ókláraða mannvirki borgarinnar.

Kvöldmatur
The Outsider (15 George IV Bridge) er vinsæll því þar er sambandið milli gæða og verðs gott. Matseðillinn er fjölbreyttur og óhætt er að mæla með fiski dagsins. Það borgar sig að panta borð.

Dagur 2 – Nýi bærinn

Egg og skoskur lax
Það er viðeigandi að borða blóðmör með morgunmatnum að hætti Skota. Þeir sem vilja fara fínna í þetta kíkja í kjallarann hjá Urban Angels (Hannover Street 121) og fá sér Egg Benedict með skoskum laxi.

Ríkislistin

Við rætur kastalahæðarinnar er National Gallery of Scotland til húsa í tveimur byggingum. Í þeirri aftari er að finna brot af þekktustu listaverkum þjóðarinnar ásamt nokkrum góðum frá frægustu málurum síðustu alda. Frítt inn.

Verslað
Princes Street blasir við þegar komið er út af safninu. Þar er nóg af búðum og líka á Queen Street og George Street sem liggja samhliða Princes Street.

Fiskur og franskar
Það er ávallt nýr fiskur á boðstólum á Queens Arms (49 Frederick Street) og þar er daglega skipt um djúpsteikingarfeiti. Það er því leit að jafn bragðgóðri útgáfu af þessum þekkta rétti.

Á pöbbinn til Fraser
Hann er með mikið yfirvaraskegg hann Fraser Gillespie á Kay´s Bar (Jamaica Street 39). Og sá hefur gaman að því að segja fólki frá ölinu sínu og viskíinu. Það er leit að huggulegri knæpu í borginni.

Farið í hundana
Á annarri hæð Hannover Street 110 er The Dogs til húsa. Stemningin er heimilisleg og maturinn sömuleiðis. The Dogs eru meðal annars fastur liður í ferðabókum Michelin sem segir sína sögu.

Easy Jet flýgur til Edinborgar frá Keflavík tvisvar í viku allt árið um kring.

HVAR ER BEST AÐ GISTA Í EDINBORG?
VEGVÍSIR: Brot af því besta í Edinborg

Myndir: Kay´s Bar og Scotland on view