Vilja bæta réttindi þeirra sem bóka ferðalög á netinu

Í dag eru farþegar sem kaupa pakkaferðir hjá ferðaskrifstofum betur settir ef eitthvað út af fer en þeir sem setja ferðina saman sjálfir. Framkvæmdaráð Evrópusambandsins vill auka skyldur ferðasala.

Ef flugfélag verður gjaldþrota er hætta á að mikill meirihluti farþega verði strandaglópar og þurfi að koma sér heim fyrir eigin reikning. Þeir sem eiga ónotaða miða með félaginu fá þá ekki bætta nema gera kröfu í þrotabúið. Hins vegar eru þeir farþegar sem til dæmis hafa keypt flug og hótel saman í einum pakka mun betur staddir. Þeir fá borgaða heimferð ef ferðalagið er hafið og fá ónýtta miða endurgreidda.

Tímabær lagfæring

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að beita sér fyrir því að fleiri farþegar njóti þeirra réttinda sem pakkaferðirnar bjóða upp á í dag. Núverandi reglur voru samþykktar fyrir nærri aldarfjórðungi síðan og með breytingunum verða þær færðar inn í stafrænu öldina líkt og segir fréttatilkynningu sem framkvæmdastjórnin sendi frá sér í gær. Þar kemur einnig fram að í dag kaupir innan við fjórðungur farþega í Evrópu pakkaðferðir. Réttindi allra hinna séu því engin eða á gráu svæði ef gjaldþrot eða náttúruhamfarir riðla ferðaplönum.

Útvíkka skilgreininguna á pakkaferð

Samkvæmt tillögum framkvæmdastjórnarinnar þá munu þeir neytendur sem bóka flugmiða, hótel og jafnvel bílaleigubíl á netsíðu flugfélags eða ferðaskrifstofu njóta sömu réttinda og um pakkaferð væri að ræða. Jafnvel þó hlutirnir séu greiddir í sitthvoru lagi og þar af leiðandi ekki hluti af einum pakka. Verði þessar tillögur að veruleika þá áætlar framkvæmdastjórn ESB að um helmingur farþega muni njóta þeirra réttinda sem aðeins fjórðungur býr við í dag. Viviane Reding, dómsmálastjóri ESB, sagði á fundi með fréttamönnum í gær að nýju reglurnar myndu veita ferðamönnum öryggisnet og hugarró en búist er við árlega muni 120 milljónir neytenda njóta góðs af breytingunum.

Takmarkar rétt til hækkana

Frumvarp framkvæmdastjórnarinnar mun einnig setja flugfélögum skorður varðandi verðbreytingar eftir að kaup hafa verið gerð og jafnvel gera félögunum það skylt að veita farþegum afslátt ef miklar breytingar verða á kostnaði, t.d. vegna lækkunar á eldsneyti eða lendingargjöldum. Einnig á að auka möguleika neytenda á að hætta við ferðir án þess þó að borga fullt gjald.

Hvenær þetta frumvarp verður tekið til afgreiðslu á Evrópuþinginu liggur ekki fyrir. Eins kemur ekki fram í tilkynningunni hvort flugfélög og ferðaskrifstofur verði að borga hærri tryggingar til að standa straum að hugsanlegum kostnaði við að flytja farþega heim.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: Viltu afslátt af gistingu, frían morgunmat eða ókeypis freyðivín upp á herbergi?
HÓTEL: Einföld leit að ódýrum hótelum út um allan heim

Mynd:SAS