Vilja setja fulla sólarlandagesti á svartan lista

Þeir Norðmenn sem eru með dólgslæti í sólarlandaferðum gætu átt það á hættu að fá ekki far heim.

Fyllerí og ólæti í sólarlandaferðum er vandamál sem taka þarf á að mati framkvæmdastjóra félags norskra ferðaskrifstofa. Hann leggur því til að ferðaskrifstofunum verðir heimilt að refsa óróaseggjunum, til dæmis með því að neita þeim um sæti í vélinni heim. Einnig leggur hann til að allir þeir Norðmenn sem hafa gerst sekir um dólgslæti í flugi eða í skipulögðum sólarlandaferðum verði settir á svartan lista og fái ekki að kaupa fleiri ferðir. Það er nefnilega þannig að margir ólátabelgir eru fastakúnnar ferðaskrifstofa og fara árlega í pakkaferðir á suðrænar slóðir. Forsvarsmenn hinnar norsku persónuverndar munu vera heldur skeptískir á þetta plan samkvæmt frétt Aftenposten.

Danir kannast ekki við vandamálið

Hið danska blað Politiken gerir þessar tillögur Norðmanna að umfjöllunarefni og bar þær undir talsmann einnar af stærstu ferðaskrifstofu landsins. Sá segir það aðallega vera fjölskyldufólk sem kaupi sólarlandaferðir og lítið sé um fyllerí. Þó séu alltaf einhverjir sem fáir sér of mikið en þetta sé ekki vandamál líkt og í Noregi.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu og bókaðu besta kostinn
TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingu á Krít

Mynd: Sindre Sørhus/Creative Commons