Kaupa ferðaskrifstofu til að skjóta stoðum undir tímaritaútgáfu

Aller, eitt stærsta útgáfufyrirtæki Norðurlanda, festi kaup á danskri ferðaskrifstofu í síðustu viku til að vega upp á móti minnkandi tímaritalestri.

Vikulega les um þriðjungur dönsku þjóðarinnar tímaritin sem Aller útgáfufyrirtækið stendur að baki. Meðal þeirra vinsælustu eru slúðurritin Se og hør og Billed-bladet. Fyrirtækið er einnig stórtækt í Noregi og Svíþjóð. Forsvarsmenn Aller segja þó blaðaútgáfu eiga undir högg að sækja þessi misserin og því ætla þeir að fjárfesta í öðrum atvinnugreinum næstu þrjú árin samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins.

Fyrsta fjárfestingin var kynnt fyrir helgi en það er meirihlutaeign í dönsku ferðaskrifstofunni Nyhavn rejser sem hefur sérhæft sig í dýrari pakkaferðum. Framkvæmdastjóri Aller segir í tilkynningu að Nyhavn rejser sé öflugt fyrirtæki sem hafi vaxið hratt síðustu ár og á teikniborðinu sé útrás til Noregs, Svíþjóðar og Finnlands.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Ódýr gisting út um allan heim

Mynd: Skjámynd Aller