Mæla ekki lengur með ferðalögum til Egyptalands

Utanríkisráðuneyti Svíþjóðar og Danmerkur leggjast nú alfarið gegn ferðum til Egyptalands. Ferðaskrifstofur reyna að finna nýja áfangastaði fyrir kúnna sína.

Sólarstrendur við Rauða njóta vinsælda meðal frændþjóðanna og þúsundir Skandinava áttu pantað far til Egyptalands næstu vikur samkvæmt fréttum frá Danmörku og Svíþjóð.

Á föstudag gaf utanríkisráðuneytið í Kaupmannahöfn hins vegar út tilkynningu þar sem Dönum er ráðlagt að halda sig fjarri Egyptalandi. Fyrr í vikunni höfðu starfsmenn utanríkisþjónustunnar sagt að ferðamönnum væri óhætt í þekktustu strandbæjunum við Rauðahafið og Aqabaflóa en svo er ekki lengur.

Þar með mega ferðaskrifstofur ekki senda fólk af stað til Egyptalands og þeir sem voru á leiðinni þangað geta valið á milli endurgreiðslu eða nýrrar ferðar. Samkvæmt frétt Politiken reyna danskar ferðaskrifstofur að koma viðskiptavinum sínum fyrir á tyrkneskum sólarströndum um þessar mundir eða jafnvel til Dubai og Abu Dhabi í stað Egyptalands.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Ódýr gisting út um allan heim

Mynd: Sindre Sørhus/Creative Commons