Netvæðingu flugflota Icelandair seinkar

Í haust átti að leggja lokahönd á vinnu við að koma upp þráðlausu neti í flota Icelandair. Ennþá er aðeins eitt flugfélag hér á landi sem býður upp á nettengingu í háloftunum.

Icelandair er eitt þeirra flugfélaga sem vinnur að því að koma upp þráðlausu neti um borð í vélum sínum. Samningur þess efnis var undirritaður í byrjun síðasta sumar og þá sögðu forsvarsmenn Icelandair að stefnt væri að því að vinnu við að netvæða flotann ætti að ljúka nú í haust.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í svari til Túrista að undirbúningur verkefnisins, einkum ýmiskonar vottanir, hafi tekið lengri tíma en ætlað var. Hlé var gert á innsetningu netbúnaðarins nú yfir hásumarið en vinnunni verður haldið áfram í haust. Í framhaldinu munu farþegar Icelandair geta notað eigin búnað til að tengjast internetinu um borð að sögn Guðjóns.

Fleiri eftir á

Í sumar stóð til að farþegar Delta á leið milli Keflavíkur og New York gætu komist á netið í fluginu en úr því varð ekki. Netvæðing flugflota SAS hefur líka gengið hægar en upphaflega stóð til. Norwegian er því enn eina félagið sem býður nær alltaf upp á þráðlaust samband í flugi frá Íslandi.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu og bókaðu besta kostinn
TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingu á Krít

Mynd: Icelandair