Ólíkar sveiflur í sætanýtingu Icelandair og Wow Air

Hlutfall seldra sæta í ferðum þeirra tveggja félaga sem eru umsvifamest á Keflavíkurflugvelli virðist ekki fylgja sama mynstri.

Í tilkynningu frá Wow Air í gær kom fram að á öðrum ársfjórðungi var sætanýting félagsins 82 prósent. Í byrjun sumars gáfu forsvarsmenn félagsins það út að 86 prósent af sætunum í apríl og maí hefðu selst. Sætanýtingin hjá Wow Air hefur því dregist saman í júní og samkvæmt útreikningum Túrista, sem byggðir eru á fjölda ferða og fyrrgreindum tilkynningum, þá hafa tæplega átta af hverjum tíu sætum selst í ferðirnar í júní. Almar Örn Hilmarsson, fyrrverandi forstjóri Sterling flugfélagsins og Iceland Express, segir í samtali við Túrista að það sé sitt mat að lággjaldaflugfélög verði að ná 85 til 92 prósent sætanýtingu yfir sumarmánuðina. Í því samhengi má benda á að Easy Jet seldi rúmlega níu af hverjum tíu sætum í ferðir sínar í júní samkvæmt upplýsingum af heimasíðu félagsins.

Icelandair toppar á sumrin

Mánaðarlega birtir móðurfélag Icelandair upplýsingar um farþegafjölda og sætanýtingu. Hlutfall seldra sæta var á bilinu 69 til 79 prósent á fyrstu fimm mánuðum ársins. Í júní var nýtingin hins vegar 82 prósent sem er tveimur til fjórum prósentustigum meira en Wow Air náði.

Þess má geta að Túristi reyndi að fá upplýsingar frá Wow Air um sætanýtingu félagsins í júní en án árangurs.

TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn
BÍLALEIGA: Rentalcars.com lofar lægsta verðinu

Mynd: Isavia