Vilja síður að fólk taki ferðatöskur með í fríið

Eftir að stjórnendur Ryanair hækkuðu farangursgjald félagsins hefur farþegum sem ferðast með meira en handfarangur snarfækkað. En betur má ef duga skal að mati framkvæmdastjóra flugfélagsins.

Níu af hverjum tíu sem fljúga með Icelandair innrita farangur en helmingur þeirra sem fljúga með Wow Air lætur handfarangur duga samkvæmt upplýsingum frá félögunum. Wow Air rukkar 2800 krónur fyrir hverja tösku en hjá Icelandair borgar fólk ekki sérstaklega fyrir þjónustuna.

Farþegar írska flugfélagsins Ryanair greiða á bilinu 15 til 60 evrur (2350-9450 krónur) fyrir innritaðar töskur og ræðst verðið af þyngd og árstíma. Þetta er nokkru hærra verð en önnur lággjaldaflugfélög rukka og afleiðing er sú að aðeins fimmti hver farþegi félagsins innritar farangur. Michael O´Leary, framkvæmdastjóra Ryanair, þykir þó hlutfallið ennþá vera of hátt og haft er eftir honum í The Telegraph að hann vonist til að í nánustu framtíð muni innan við tíundi hver farþegi Ryanair ferðast með meira en handfarangur.

Handfarangursgjald ekki í pípunum

Nokkur evrópsk og bandarísk flugfélög eru byrjuð að rukka farþegana sérstaklega fyrir allan handfarangur sem kemst ekki undir sætin. Nemur gjaldið t.a.m. um 10 evrum (1575 krónur) hjá lággjaldaflugfélaginu Wizz Air. Michael O´Leary segist ekki reikna með að Ryanair feti í fótspor þessa félaga en telur þó að þessi nýja gjaldtaka sé komin til að vera. Þingmenn á Evrópuþinginu ætla þó að beita sér fyrir því að ESB tryggi rétt flugfarþega til að taka með sér handfarangur án þess að greiða sérstaklega fyrir það.

Ekki pláss fyrir allar töskur í farþegarýminu

Í byrjun sumar innleiddu forsvarsmenn Easy Jet nýjar farangursreglur sem eiga að auka líkurnar á að fólk taki minni töskur með sér um borð. Áhafnarmeðlimir félagsins mega samkvæmt nýju reglununum senda hefðbundnar handfarangurstöskur niður í töskugeymsluna ef ekki er pláss fyrir þær allar í farangursrýminu. En farþegar Easy Jet greiða um 3100 krónur fyrir hverja innritaða tösku. Það virðist því sem farangursgjöldin séu byrjuð að koma í hausinn á stjórnendum lággjaldaflugfélaganna. Átta af þeim flugfélögum sem halda uppi áætlunarflugi héðan í sumar rukka sérstaklega fyrir farangur.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Flugrútan fær að leggja við flugstöðina á ný

Mynd: Túristi