Banna ríkisstyrki til flugvalla

Rekstur flugvalla á Evrópska efnahagssvæðinu á að standa undir sér og setja á strangari reglur um styrki til flugfélaga. Að öllu óbreyttu munu breytingarnar hafa áhrif á starfsemi flugvallanna á Akureyri og í Reykjavík.

Ef meira en tvö hundruð þúsund farþegar á ári fara um ákveðinn flugvöll þá má ekki fjármagna rekstur hans með almannafé. Þetta kemur fram í nýjum drögum framkvæmdaráðs Evrópusambandsins um starfsemi flugvalla á Evrópska efnahagssvæðinu. Reglurnar myndu ná til starfsemi flugvallanna í Keflavík, Reykjavík og Akureyri en aðrir vellir hér á landi uppfylla ekki kröfur um lágmarks farþegafjölda.

Koma í veg fyrir óþarfa styrkveitingar

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia, sem rekur flugvellina hér á landi, er markmið nýju reglnanna að beina styrkveitingum að markaðsbrestum og um leið að koma í veg fyrir óþarfa styrkveitingar og eyðslu á almannafé. Núverandi drög að ríkisstyrkjareglunum útiloka nánast stuðning við flugvelli með meira en fimm milljónir farþega á ári og takmarka styrki til flugvalla með þrjár til fimm milljónir farþega. Á síðasta ári fóru um tvær og hálf milljón farþega um Keflavíkurflugvöll og í svari Isavia til Túrista kemur fram að nýju reglurnar muni hafa óveruleg áhrif á Keflavíkurflugvöll þar sem hann er fjármagnaður með notendagjöldum. Hins vegar er ekki búið að greina hver áhrifin verða á rekstur flugvallanna á Akureyri og í Reykjavík.

Notendur greiða lágt hlutfall

Á þessu ári er gert ráð fyrir að rekstur Akureyrarflugvallar kosti 441 milljón og þar af eru tekjur af notendagjöldum 77 milljónir eða 17,5 prósent af kostnaði. Rekstrarkostnaður Reykjavíkurflugvallar er áætlaður 659 milljónir í ár og notendagjöldin dekka 58 prósent af þeirri upphæð samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Íslenska ríkinu yrði því væntanlega bannað að veita styrkjum til þessara tveggja flugvalla ef reglurnar verða samþykktar innan ESB. Í Noregi er talið að átta flugvellir muni missa ríkisstyrki vegna breytinganna samkvæmt frétt á vef Nationen. Nýju reglurnar eiga að ganga í gildi eftir tíu ár.

Skerða möguleikana á niðurfellingu lendingagjalda

Eitt af því sem forsvarsmenn flugvalla nota til að laða til sín ný flugfélög og fjölga áfangastöðum er að bjóða afslátt af lendinga- og farþegagjöldum. Hér á landi njóta félög til að mynda styrkja í þrjú ár þegar þau hefja flug inn á nýjan markað frá Keflavík. Í tillögum framkvæmdastjórnarinnar er gert ráð fyrir að aðeins flugvellir með færri en þrjár milljónir farþega á ári megi veit þannig styrki og aðeins til tveggja ára.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTTUR Á GÓÐU HÓTELI Í KAUPMANNAHÖFN
BÍLALEIGA: RENTALCARS LOFAR LÆGSTA VERÐINU

Mynd: Isavia