Sofið í sirkus

Túristi mælir óhikað með Circus hótelinu í Mitte fyrir þá sem vilja eiga fjöruga helgi í Berlín.

Það væri í raun hægt að fara í borgarferð til Mitte í Berlín. Þessi miðpunktur borgarinnar hefur upp á allt að bjóða fyrir þá sem vilja eiga nokkra notalega daga í stórborg.

Við Rosenthaler Platz, eitt af stærri torgum hverfisins, eru tveir gististaðir sem kenndir eru við Circus. Sá ódýrari er gistiheimili og þar kostar nóttin í sérherbergi um 5 þúsund krónur (33 evrur). Verðið lækkar ef fleiri deila herbergi en hækkar ef bókaðar eru vistaverur með baði. Á hótelinu hinum megin við torgið eru eins manns herbergi frá 12 þúsund krónum á nóttina. Þeir sem vilja vera á miðpunkti stórborgarinnar eru vel í sveit settir á hótelum sirkusfólksins. Túristi tók hótelið út nýverið.

Herbergin

Circus hótelið skipar sér í flokk með nýmóðins hótelum þar sem innréttað er á einfaldan en persónulegan hátt. Herbergin eru mörg máluð í björtum litum, með stórum ljósmyndum á veggjum og mubblurnar sennilega keyptar í risastórri sænskri húsgagnabúð. Rúmin eru þó þægileg og sturtan góð, en þessi tvö atriði skipta ferðalanga oft meira máli en hægindastólar og skrifborð. Umferðin um Rosenthaler Platz er jöfn og þétt frá morgni til kvölds og þeir sem gista götumegin verða varir við það. Það gæti því verið sniðugt að fórna útsýninu og biðja um herbergi sem vísar út í bakgarðinn losna þannig við hávaðann frá götunni.

Staðsetningin

Circus stendur á mörkum Mitte og Prenzlauer Berg en það síðarnefnda hefur lengi verið vinsælt með Berlínarbúa. Það er því ógrynni af skemmtilegum veitingastöðum, sérverslunum og skemmtistöðum í kallfæri við hótelið. Það er metróstöð (U-Bahn) við hóteldyrnar og þaðan er auðvelt að taka lestina í allar áttir og komast áleiðis út á Schönefeld flugvöll.

Verðið

Tveggja manna herbergi í ódýrari kantinum kostar tæpar fjórtán þúsund krónur sem skipar Circus í flokk með millidýrum hótelum í Berlín. Verðlagið í höfuðborg Þýskalands er nefnilega ennþá nokkuð lægra en í stórborgunum í vesturhluta Evrópu.

Maturinn

Morgunverðarhlaðborð hótelsins er ljómandi fínt, alls kyns brauð og alvöru kjötálegg. Djúsinn er þó heldur naumt skammtaður. Á hótelinu er líka bar og afslappaður veitingastaður sem virðist líka draga til sín heimamenn. Það eru því ekki bara hótelgestir sem staldra við í Circus byggingunni við Rosenthaler Platz.

Sjá heimasíðu Circus-Berlin.

GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM Í BERLÍN
VEGVÍSIR: MATUR OG DRYKKUR Í BERLÍN

Myndir: Circus Berlin