Enn bið eftir fríu neti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Núverandi tölvukerfi Keflavíkurflugvallar er ekki nógu öflugt til að hægt sé að bjóða upp á ókeypis nettengingu í flugstöðinni.

Í byrjun sumars stóð til að hætta að rukka farþega í Keflavík fyrir aðgang að þráðlausu neti. Þar með myndi Flugstöð Leifs Eiríkssonar bætast í sífellt stækkandi hóp flughafna þar sem netsambandið er frítt. En líkt og Túristi sagði frá í ársbyrjun þá bjóða meira en áttatíu norrænar flugstöðvar upp á þessa þjónustu án endurgjalds.

Verkefnið hefur hins vegar reynst flóknara en gert var ráðið fyrir og samkvæmt upplýsingum frá Isavia, rekstraraðila flugvallarins, þurfti að kaupa sérstakan búnað til þess að ráða við það álag á tölvukerfið sem notkuninni fylgir. Er áformað að hefja prófanir á þjónustunni að nýju um miðjan nóvember.

Í dag greiða farþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 490 krónur fyrir klukkutíma aðgang að þráðlausu neti. Fjórir tímar kosta 990 krónur og sólarhringur 1990 krónur.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTTUR Á GÓÐU HÓTELI Í KAUPMANNAHÖFN
BÍLALEIGA: RENTALCARS LOFAR LÆGSTA VERÐINU