Færeyskur flugvallarstjóri vill fleiri ferðir til Íslands

Flugferðum milli Kaupmannahafnar og Þórshafnar í Færeyjum hefur verið fjölgað á kostnað Íslandsflugs að mati flugvallarstjórans á Vága.

Það segir sig sjálft að farþegi sem ætlar frá Færeyjum til Íslands vill síður þurfa að millilenda í Kaupmannahöfn. Og það sama á við um þá sem ætla frá Þórshöfn til London, Oslóar eða Jótlands. Vetraráætlun Atlantic Airways gerir hins vegar ráð fyrir mun fleiri ferðum til dönsku höfuðborgarinnar en annarra borga og það er Jákup Sverri Kass, yfirmaður Vága flugvallar í Þórshöfn, ekki sáttur við. Haft er eftir honum á dönsku netsíðunni Checkin að beint flug til fleiri staða myndi fjölga farþegum í Færeyjum og nefnir hann Reykjavik og Billund í því samhengi.

Talsmaður Atlantic Airways vísar gagnrýninni á bug og segir að félagið hafi fjölgað áfangastöðum og ferðum síðustu mánuði. Hann bendir jafnframt á að það búi aðeins um fimmtíu þúsund manns í Færeyjum og ferðaþjónustan þar liggi í dvala á veturna.

Eins og kom fram hér á síðunni nýverið fljúga Atlantic Airways og Flugfélag Íslands til Þórshafnar frá Reykjavíkurflugvelli tvisvar í viku í vetur.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTTUR Á GÓÐU HÓTELI Í KAUPMANNAHÖFN
BÍLALEIGA: RENTALCARS LOFAR LÆGSTA VERÐINU

Mynd: Vága Floghavn