Svona kemstu til Manhattan frá Newark og JFK

newyork loft Troy Jarrell

Ertu á leið til New York eða að spá í ferðalag þangað? Ef svo er þá geturðu valið á milli áætlunarferða þriggja flugfélaga til borgarinnar sem annað hvort lenda á JFK flugvelli eða Newark. Og þetta eru svo kostirnir sem eru í boði til að koma sér til og frá flugvöllunum og inn á Manhattan.
Eftir langt ferðalag er freistandi að hoppa upp í leigubíl við komuna á áfangastað og láta keyra sér beint að gististaðnum. Sérstaklega í stórborg eins og New York en eins og sjá má þá eru margir aðrir möguleikar fyrir hendi og flestir eru þeir ódýrari en leigubíllinn. Skiptir þá engu hvort flogið er til Newark eða JFK flugvallar en Icelandair býður upp á ferðir til beggja þessara flugvalla á meðan WOW flýgur héðan til Newark og Íslandsflug Delta er frá JFK.

Newark flugvöllur

Strætó og lest: ca. 700 krónur – 60 mínútur

Leið númer 62 fer reglulega frá flugvallarsvæðinu og keyrir til Newark Penn Station. Þaðan er hægt að taka lest NJ Transit til Manhattan og borga um 5 dollara (um 600 krónur) fyrir allt ferðalagið.

Lest: ca. 1600 krónur – 40 mínútur

AirTrain lestirnar flytja farþega milli flugstöðvarinnar og Newark Liberty Airport Station allan sólarhringinn. Oftast eru aðeins þrjár mínútur á milli lesta og ferðin út á Newark Liberty stöðina tekur aðeins nokkrar mínútur. Þegar þangað er komið þarf að skipta yfir í lest NJ Transit sem keyrir fjórum til sex sinnum á klukkutíma til Penn Station á Manhattan. Hægt er að kaupa miða sem gildir í bæði AirTrain og NJ Transit við innganginn í lestina á flugvellinum. Ef ekki þarf að bíða lengi eftir NJ Transit þá tekur ferðalagið um fjörtíu mínútur. Lestir Amtrak keyra líka þessa leið og kostar farið a.m.k. 26 dollara.

Rúta: um 2000 krónur – 45 til 60 mínútur

Áætlunarferðir Newark Airport Express eru í boði á korters fresti frá morgni og fram yfir miðnætti. Rútan stoppar á þremur stöðum á Manhattan og við allar þrjár álmur flugvallarins. Farið kostar 17 dollara en 29 dollara báðar leiðir. Ögn ódýrara ef keyptar eru báðar leiðir í einu. NYC Airporter er líka með áætlunarferðir fyrir sama verð. Fyrirtækið keyrir fólki upp á hótel sem eru miðsvæðis á Manhattan án aukagjalds.

Skutla: 1700 krónur – 45 til 60 mínútur

Ef þú vilt láta keyra þig til og frá hótelinu án þess þó að leggja út fyrir leigubíl eru skutlur á vegum Go Airlink NYC og Super Shuttle fínn kostur. Bílarnir taka um 10 farþega og keyra annað hvort beint upp á hótel með hvern og einn eða koma þeim í aðra bíla þegar komið er inn í borgina. Fyrirtækin sækja svo fólk upp á hótel á ákveðnum tímum. Farið kostar um 17 dollara aðra leið og ódýrara ef bókaðar er báðar leiðir í einu.

Leigubíll eða Uber: Að minnsta kosti 4 til 5 þúsund krónur – 30 mínútur

Gulir leigubílar bíða við flugstöðina og bjóða oftast fast verð inn á Manhattan. Ef fjórir ferðast saman þá getur verið ódýrara að taka leigubíl en lest eða rútu. En umferðin getur auðveldlega lengt ferðalagið með bíl töluvert. Að deila Uber bíl með ókunnugum ætti að vera ódýrari kostur. 

John F. Kennedy flugvöllur

Metró: 900 krónur – 50 til 75 mínútur

AirTrain lestirnar keyra jafnt og þétt milli flugvallarsvæðisins og nálægra metróstöðva. Á heimasíðu flugvallarins má sjá hvað metrólínu skal taka eftir því hvert á Manhattan skal haldið. Sjá upplýsingarnar hér.

Rúta: um 1700 krónur – 45 mínútur

Kosturinn við nýta sér NYC Airporter er sá að þegar komið er inn á Manhattan þá býður fyrirtækið upp á fríar ferðir á hótel sem eru miðsvæðis. Þetta getur þó tekið smá tíma og einhverjir sem vilja heldur taka leigubíl síðasta spölinn.

Skutla: 2200 krónur – 45 til 60 mínútur

Líkt og frá Newark er hægt að taka bíl á vegum Go Airlink NYC og Super Shuttle frá JFK flugvelli og upp á hótel.

Leigubíll eða Uber: Að minnsta kosti 4 til 5 þúsund krónur – 30 mínútur

Bílstjóri á gulum leigubíl má aðeins rukka farþega 52 dollara (þjórfé bætist við) fyrir farið frá flugstöðinni og inn á Manhattan. Að deila Uber bíl með ókunnugum ætti að vera ódýrari kostur.

SMELLTU HÉR TIL AÐ BERA SAMAN VERÐ GISTINGU Í NEW YORK OG HÉR TIL AÐ BERA SAMAN FLUGFARGJÖLDIN TIL NEW YORK