Hækkar fargjaldið því oftar sem þú leitar?

Flugfélög eru stundum grunuð um að nýta sér vefkökur til að verðleggja farmiða fyrir hvern og einn. Upplýsingafulltrúi Icelandair segist ekki þekkja til þess háttar tækni.

Það kannast líklega allir ferðalangar við hversu tímafrekt það getur verið að leita uppi hagstæðasta farið úr landi. Fólk eyðir löngum stundum á netbókunarvélum flugfélaganna til að gera verðsamanburð og finna bestu dagsetningarnar. Síðan ber það ferðaáætlunina undir samferðafólkið og loks þegar komið er að því að bóka þá hefur flugið hækkað óþægilega mikið.

Og þeir eru greinilega margir sem gruna flugfélögin um græsku í þessum efnum. Því sá orðrómur hefur lengi verið í gangi að félögin fylgist með heimsóknum á heimasíðuna sína með svokölluðum vefkökum. Þannig geti þau hækkað fargjaldið þeim mun oftar sem bókunarvélin er notuð í viðkomandi tölvu.

Ekki í notkun hér

„Við könnumst ekki við þá tækni sem þarna er lýst og höfum að sjálfsögðu aldrei notað hana“, segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, þegar Túristi bar þessar sögusagnir undir hann. Kollegar Guðjóns hjá Norwegian og SAS tóku í sama streng þegar málið var til umfjöllunar í norska blaðinu Aftenposten. Þau segja að fargjaldið ráðist meðal annars af framboði, eftirspurn, tilboðum og tímasetningum en ekki af fjölda heimsókna einstakra kúnna á heimasíðu félaganna.

Fundu engar vísbendingar um njósnir

Í lok síðasta árs könnuðu sérfræðingar bresku neytendastofunnar (Office of Fair Trading) hvort forsvarsmenn netverslana nýti vefkökur til að fylgjast með kúnnunum og ákveði verð út frá þeim upplýsingum sem þær hafa um netnotkunina. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að fyrirtæki notfæra sér ekki þessar upplýsingar til að hækka verð. Í skýrslunni segir jafnframt að verðlagning á vörum með takmarkaðan líftíma, t.d. farmiðum, sé alla jafna breytileg eftir því sem nær líður síðasta söludegi. Samkvæmt frétt Aftenposten var sambærileg könnun gerð í Hollandi nema þar var einblínt á heimasíður flugfélaga. Niðurstaðan var sú sama og í bresku könnuninni.