Hvað kostar að nota snjallsíma í Evrópureisunni?

Það getur kostað nærri þrjátíu sinnum meira að nota netið í farsímanum á ferðalagi í Bandaríkjunum en í Evrópu. Það er útlit fyrir að munurinn verði enn meiri á næsta ári.

Íslenskur ferðamaður í Bretlandi borgar 447 krónur fyrir að skoða netið í 10 mínútur í símanum sínum. Sá sem er staddur í Bandaríkjunum gæti hins vegar þurft að greiða rúmar þrettán þúsund krónur fyrir. Helsta ástæðan fyrir þessum gífurlega mun er sú staðreynd að Evrópusambandið lækkar árlega það hámarksverð sem símafyrirtækin mega rukka fyrir notkun farsíma á Evrópska efnahagssvæðinu. Verðskrár allra íslensku fjarskiptafyrirtækjanna byggja á þessu hámarksverði sem Póst- og fjarskipastofnun gefur út.

Hins vegar er mikill munur á þóknun þeirra þegar kemur að símnotkun vestanhafs eins og kom fram hér nýverið.

Dýrt að horfa á sjónvarpið

Fréttaþyrstir ferðalangar ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir horfa á sjónvarpsfréttir í símanum sínum í gegnum 3G net í Evrópu. Það gæti nefnilega kostað um átta þúsund krónur eða því sem nemur þakinu sem símafyrirtækin eru með á niðurhali í útlöndum

Kostnaður við að nota netið í íslenskum síma á meginlandi Evrópu:

Gagnanotkun* Hámarksverð ESB
Netið: 10 mínútur 5 Mb 447 kr.
Facebook: 6 mínútur 2 Mb 179 kr.
Tölvupóstur: 20 stk án viðhengja 0,5 Mb 45 kr.
You Tube: 4 mín 11 Mb 982 kr.
Instagram: 5 myndir 1 Mb 89 kr.
Google Maps: 10 mín 6 Mb 536 kr.
Sjónvarp: 30 mín 90 Mb 8.027 kr.
 
*fjöldi megabæta er byggður á upplýsingum af heimasíðum nokkurra erlendra símafyrirtækja. Þau setja öll fyrirvara við útreikningana og segja þá aðeins til viðmiðunar.

Afsláttarpakkar

Þeir sem eru í viðskiptum við Símann eða Vodafone geta lækkað símakostnaðinn á ferðalagi innan EES-svæðisins töluvert með því að skrá sig skrá sig fyrir sérstökum þjónustum sem fyrirtækin bjóða upp á. Í Ferðapakka Símans kostar hvert megabæti 35 krónur í stað 88,5 króna og þeir sem eru með EuroTraveller hjá Vodafone borga 90 krónur fyrir hver 15 megabæti. Daggjaldið fyrir þessa þjónustu er 490 krónur hjá Símanum en 690 hjá Vodafone. Ferðalangar sem sjá til dæmis fram á að nota netið í um tíu mínútur á dag og styðjast við Google Maps af og til lækka símreikningin með því að nota þessa þjónustur. Einnig sendir fólk frí SMS, borgar ekkert fyrir að svara í símann og hringir ódýrara heim.

Lækkar um meira en helming á næsta ári

Frá því að Evrópusambandið hóf að setja þak á símakostnað innan Evrópska efnahafssvæðisins hefur gjaldið fyrir gagnanotkun erlendis lækkað um 91 prósent samkvæmt því sem segir á heimasíðu ESB. 1. júlí á næsta ári lækkar hámarksverðið enn frekar en í dag er það 89,3 krónur fyrir hver á megabæti. Næsta sumar gæti það farið niður fyrir fjörtíu krónur en gengi íslensku krónunar spilar hins vegar inn í og því ekki víst hvar hámarkið verður. Það er þó ljóst að það mun lækka töluvert.