Júní ekki lengur mesti ferðamánuður ársins

Síðastliðinn áratug hafa flestir Íslendingar ferðast til útlanda í júnímánuði. Í sumar varð breyting á og líklega hefur veðrið haft mikil áhrif á breytt ferðamynstur landsmanna.

Strax í byrjun sumars hefur ferðagleði Íslendinga náð hámarki því allar götur síðan árið 2004 hefur júní verið sá mánuður sem flestir hefja utanlandsferðina í. Núna kusu hins vegar tæplega fimm hundruð fleiri Íslendingar að ferðast út í ágúst frekar en í júní. Þetta er fyrsta skipti sem það gerist samkvæmt talningu Ferðamálastofu sem nær tíu ár aftur í tímann.

Í júní flugu 36.284 Íslendingar frá Keflavíkurflugvelli, í júlí fóru 33.366 og í ágúst ferðuðust 36.773 til útlanda.

Ágúst vinsælli eftir hrun

Á árunum 2004 til 2008 var júlí alltaf næst mesti ferðamánuðurinn ársins meðal Íslendinga. En síðustu fimm sumur hefur júlí dottið aftur fyrir ágúst eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan. Hafa verður í huga að Íslendingar sem eru búsettir í útlöndum eru taldir með og það kann að útskýra breytinguna síðastliðin ár. En sennilega er óhætt að fullyrða að vinsældir ágústmánaðar í ár skrifist á slæmt veðurfar, sérstaklega á suðvesturhorninu, því samkvæmt fréttum þá var mikil eftirspurn eftir utanlandsferðum þegar líða tók á sumarið.

 

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: 15% afsláttur af gistingu í Kaupmannahöfn
BÍLALEIGUBÍLL: Rentalcars lofar lægsta verðinu

Heimild: Ferðamálastofa
Mynd: Wikicommons