Kaupmannahöfn frá A til Ö

Matarmenning Dana er grunnurinn að þeirri íslensku. Danska hakkebuffið hefur þó ekki skilað sér nógu vel hingað til lands og því nauðsynlegt að koma við á Toldbod Bodega og panta sér “Store dreng” í næstu ferð. En Stefán Islandi var einn af fastagestum staðarins og spilaði billjard í bakherberginu ásamt kollegum sínum í Óperunni.

Nýhöfn er sennilega einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í Kaupmannahöfn. Veitingastaðirnir við “Den glade side” njóta góðs af því og prísarnir þar eru nokkru hærri en víða annars staðar í borginni.

Ordrupgaard er listasafn rétt við Bakken í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Viðbygging safnsins var teiknuð af Zaha Hadid, einum þekktasta núlifandi arkitekt heims og þar er oft áhugaverðar sýningar. Þó Louisiana sé sér á báti þá er líka þess virði að heimsækja Ordrupgaard og huggulegt að ganga í skóginum að húsinu.

Ólæti hafa sett svip sinn á borgina með reglulega millibili. Þegar Ungdómshúsið á Norðurbrú var rýmt fyrir 6 árum síðan ríkti eiginlega stríðsástand á götum þessarar friðsælu borgar í nokkra daga.

Parken er þjóðarleikvangur Dana og þar eru íslenskir knattspyrnumenn reglulega sólaðir upp úr skónum.

Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn hefur lengi verið haldið í gíslingu af panflautuleikurum. Þeir eru hins vegar farnir annað því framkvæmdir við gerð metróstöðvar yfirgnæfa músíkina. Það hefur því ekki verið jafn notalegt að borða pylsu á torginu í langan tíma því vinnuvélahljóðin venjast betur en flautið.

Smurbrauðsstaðirnir í miðbænum eru skyldustopp á ferðalagi um Kaupmannahöfn. Réttirnir eru klassískir og uppskriftin víðast sú sama. Hráefnið er hins vegar misgott en Schønnemann og Slotskælderen hos Gitte Kik eru alltaf peninganna virði. Sorgenfri er líka klassíkur staður og þar er opið fram á kvöld.

Tívolí tekur T-ið þó vissulega geri Thorvaldsenssafnið líka tilkall til þess. Thorvaldsen var hálfur Íslendingur eða eins og segir í enskum bæklingi safnsins, „his father was from island”. Hvort höfundur hafi viljandi viljað villa um fyrir erlendum gestum safnsins skal ósagt látið en þetta er alla vega ekki góð enska.

Umferðin í Kaupmannahöfn er sjaldnast þung, alla vega miðað við margar aðrar borgir. Þeir sem setjast undir stýri í borginni ættu þó að passa sig í hægri beygjunum því þá er mikil hætta á árekstri við reiðhjól.

Útlendingar með lögheimili í Kaupmannahöfn eru nærri 175 þúsund talsins. Þar af eru 3698 íslenskir ríkisborgarar.

Vötnin eða Søerne sem skilja Brúarhverfin frá miðborginni eru eitt vinsælasta útivistarsvæði Kaupmannahafnarbúa. Hér skokkar fólk allan sólarhringinn, barnavagnar halda stígnum sléttum og stundum leggur vatnið og þá dregur fólk fram skauta og gönguskíði.

Ytri-Norðurbrú var áður verksmiðjuhverfi en nú eru þar aðallega íbúðahúsnæði. Hverfið er sagt byrja við Jagtvej og á því svæði eru tvær götur, Jægerborgsgade og Stefansgade, sem njóta sívaxandi vinsælda meðal þeirra sem vilja gera vel við sig í mat og drykk og versla í öðruvísi búðum.

Þorrablót Íslendingafélagsins eru nú haldin á Norðurbryggju í Christianshavn þar sem íslenska sendiráðið er til húsa. Einn þekktasti veitingastaður heims, Noma, er í hinum enda hússins en matreiðslumennirnir þar hafa víst ekki komið yfir til að biðja um smakk hjá Íslendingunum.

Æsifréttablöðin tvö, Ekstrabladet og BT, hengja upp plaköt út um allan bæ og af fyrirsögnunum að dæma er eitthvað virkilega rotið í Danaveldi. Þær fréttir eiga sjaldnast við rök að styðjast.

Ölið er eitt af því einkennir Danmörku, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Danir eru löngu hættir að fá sér bjór með hádegismatnum en þeir drekka þó meira af áfengi en aðrir Norðurlandabúar. Fyrir þá sem vilja prófa eitthvað annað en Carlsberg og Tuborg þá er Mikkeller barinn á Stefansgade málið.

VILTU 15% AFSLÁTT AF GISTINGU Í KAUPMANNAHÖFN

Greinin birtist fyrst í Fréttatímanum
Mynd: Copenhagen Media Center