Næsta sumar tekur á sig mynd

Fleiri ferðir til Kanada og Sviss og samkeppni á ný í flugi til Stokkhólms er meðal þess sem við vitum um flugáætlun næsta árs en hvað hyggst Easy Jet gera?

Nú þegar sumarvertíðinni er lokið gefst starfsmönnum flugfélaganna tími til að fínpússa áætlun næsta árs. Icelandair hefur nú þegar tilkynnt að félagið ætli að fljúga til 38 áfangastaða á næsta ári og þar af eru þrír nýir; Edmonton og Vancouver i Kanada og Genf í Sviss. En svissneska borgin var ein af þeim sem Túristi tippaði á að myndi bætast við leiðakerfi Keflavíkurflugvallar á næsta ári.

Icelandair mun einnig fjölga ferðum til margra áfangastaða og þarf því að bæta þremur vélum við flugflota sinn samkvæmt tilkynningu félagsins.

Samkeppni í Stokkhólmi á ný

Helmingur allra gistinátta Íslendinga á sænskri grundu er á Stokkhólmssvæðinu samkvæmt talningu ferðamálaráðs borgarinnar. Í fyrra fjölgaði þeim um fjórðung.

Í gær tilkynntu forsvarsmenn Wow Air að félagið hyggist bjóða upp á þrjár ferðir í viku til Stokkhólms allt árið um kring frá og með 1. júní. Hingað til hafa SAS og Iceland Express veitt Icelandair samkeppni á flugleiðinni en aðeins á sumrin, þó ekki í ár.

Hvað gerir Easy Jet?

Í nýlegu viðtali Viðskiptablaðsins við Hugh Aitken, framkvæmdastjóri Easy Jet, kom fram að stjórnendur þess íhugi að fljúga hingað til lands frá fleiri borgum. Í dag býður félagið upp á ferðir til Íslands frá þremur breskum borgum allt árið um kring. Easy Jet er með starfsstöðvar í tíu borgum á meginlandi Evrópu og þar af eru fjórar í Frakklandi. Ef breska félagið heldur áfram að fókusa á heilsársflug þá verður að teljast líklegt að flug milli Keflavíkur og Parísar verði fyrir valinu enda eru franskir ferðamenn fjölmennir hér á landi. Sömu sögu er að segja um Þjóðverja en Easy Jet hefur vaxið hratt í höfuðstað Þýskalands og ekki ólíklegt að félagið bæti sér í slaginn um farþega á milli Berlínar og Íslands. Líkt og Túristi greindi nýlega frá þá fjölgaði gistinóttum Íslendinga í Berlín um þriðjung á þessu ári.

Fyrir íslenska túrista væri ánægjulegt ef Easy Jet myndi bæta flugi til Íslands við starfsemi sína í Nice, Lissabon eða Róm en ekki hefur verið boðið upp á áætlunarflug til þessara borga frá Íslandi.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR AF GISTINGU Í KAUPMANNAHÖFN
HÓTEL: GERÐU VERÐSAMANBURÐ OG BÓKAÐU HAGSTÆÐASTA KOSTINN