Norwegian fjölgar áfangastöðum í Bandaríkjunum

Norska flugfélagið boðar „lággjaldabyltingu“ í flugi milli Skandinavíu og Bandaríkjanna. Félagið ætlar að fljúga til Orlando frá og með vorinu og einnig til vesturstrandarinnar.

Vöxtur lággjaldaflugfélagsins Norwegian hefur verið hraður síðustu ár. Félagið er nú það næststærsta í Skandinavíu og farþegar þess verða um tuttugu milljónir í ár. Í maí hóf félagið að bjóða upp á áætlunarferðir til New York og Bangkok í Taílandi frá höfuðborgum Skandinavíu og brátt hefst flug til Ft. Lauderdale í Flórída.

Í morgun kynnti Bjørn Kjos, forstjóri og stofnandi Norwegian, næstu skref í stækkun félagsins. Los Angeles, Orlando og Oakland, í nágrenni við San Francisco, verða nýir áfangastaðir félagsins vestanhafs strax á næsta ári og í nánustu framtíð mun félagið fjölga ferðum til Asíu. Flug til S-Ameríku og S-Afríku kemur einnig til greina. Forstjórinn sagði að með nýjum og sparneyttum flugflota geti félagið boðið upp á ódýrari fargjöld en nú þekkjast milli Skandinavíu og Bandaríkjanna.

Aukin samkeppni fyrir íslensku félögin

Icelandair hefur um langt árabil flogið til Orlando en í janúar mun Norwegian hefja flug þangað frá Osló. Félagið flýgur einnig til Ft. Lauderdale frá Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. Með fleiri ferðum Norwegian til Flórída er ljóst að Icelandair fær aukna samkeppni um farþega á milli „sólskinsfylkisins“ og Skandinavíu. Sömu sögu er að segja um ferðir til og frá New York því Norwegian ætlar að hefja flug þangað frá Kaupmannahöfn í lok febrúar. En eins og áður hefur komið fram áforma forsvarsmenn Wow Air að hefja flug til borgarinnar í vor.

Norwegian flýgur þrisvar í viku milli Keflavíkur og Oslóar.

Á morgun birtir Túristi viðtal við Bjørn Kjos, forstjóra Norwegian, þar sem hann segir m.a. álit sitt á Icelandair, Ameríkuflugi Wow Air og ræðir samkeppnina við Sterling flugfélagið í Danmörku sem var í eigu Íslendinga.

TILBOÐ: 15% afsláttur á góðu hóteli í Kaupmannahöfn
BÍLALEIGA: Rentalcars.com lofar lægsta verðinu

Mynd: Norwegian