Opna sérstakt innritunarborð fyrir fjölskyldur

Það getur tekið á taugarnar að ferðast með börn. Forsvarsmenn Lufthansa prófa nú nýtt fyrirkomulag sem á að auðvelda þeim yngstu ferðalagið.

Að byrja daginn eldsnemma, keyra út á völl, standa í langri biðröð við innritunarborð og aftur í vopnaleitinni er nokkuð strembin byrjun á deginum. Sérstaklega fyrir börn. Það er því ekki skrítið að mörg þeirra láti bugast loksins þegar komið er um borð í flugvélina.

Fjölskyldur sem ferðast með þýska félaginu Lufthansa frá Frankfurt og Munchen geta nú dregið aðeins úr álaginu með því að nýta sér sérstök innritunarborð sem eru aðeins ætluð þeim sem ferðast með börn sem eru tólf ára og yngri. Við borðin eru t.d. pallar sem þau yngstu geta stigið upp á til að afhenda vegabréfin sín sjálf og taka á móti brottfararspjöldum.

Fjölskylduhlið í Kastrup

Það eru ekki aðeins stjórnendur Lufthansa sem reyna að finna leiðir til að auðvelda börnum ferðalagið í gegnum flugstöðina. Í vopnaleitinni á Kaupmannahafnarflugvelli eru til að mynda öryggishlið sem eru frátekin fyrir börn og samferðamenn þeirra.

NÝJAR GREINAR: HVERJIR FLJÚGA HVERT Í VETUR?
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Í KAUPMANNAHÖFN FYRIR LESENDUR

Myndir: Lufthansa og Cph.dk