Ryanair undirbýr flug til Bandaríkjanna

Það er útlit fyrir að evrópsk lággjaldaflugfélög verða tíðir gestir við flugstöðvar vestanhafs innan nokkurra ára. Forstjóri Ryanair segir félagið klárt í slaginn eftir nokkur ár en hann ætlar ekki að gera sömu mistök og Norwegian hefur gert.

Það er alltof áhættusamt að bjóða upp á áætlunarflug til Bandaríkjanna með aðeins tvær flugvélar líkt og Norwegian hefur gert. Þetta er mat Michael O´Leary forstjóra Ryanair sem er stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu. Hann telur Norðmennina tefla of djarft og segir að Ryanair muni fljúga til N-Ameríku eftir þrjú til fjögur ár og sjö flugvélar verði nýttar til verkefnisins. Gert er ráð fyrir að ferðunum og áfangastöðunum fjölgi jafnt og þétt og fimmtíu vélar muni sinna Ameríkufluginu eftir áratug eða svo samkvæmt frétt Air Transport World. Norwegian nýtir tvær splunkunýjar Boeing Dreamliner vélar í flug sitt til Ameríku og Asíu en vegna tíðra bilana hefur félaginu gengið illa að halda áætlun.

Styttist í að Wow Air haldi vestur

Norwegian er fyrsta evrópska lággjaldaflugfélagið sem býður upp á áætlunarferðir til annarra heimsálfa. Iceland Express spreytti sig reyndar á flugi til Bandaríkjanna árin 2010 og 2011 en þar sem félagið var ekki flugrekandi er það ekki tekið með í reikninginn þegar erlendir fjölmiðlar segja frá landvinningum Norwegian í N-Ameríku.

Forsvarsmenn Wow Air hafa gefið út félagið hefji flug til tveggja áfangastaða í Bandaríkjunum þegar umsókn þeirra um flugrekstrarleyfi hefur verið afgreidd. Túristi ræddi nýverið þessi áform Wow Air við Bjørn Kjos forstjóra Norwegian og hann sagði að það væri mjög fjárfrekt að byggja upp það kerfi sem þarf til að halda úti áætlunarflugi til Bandaríkjanna. Hann drægi því í efa að þessi plön íslenska félagsins gengju upp. Kjos viðurkenndi þó að hann þekkti ekki til Wow Air.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTTUR Á GÓÐU HÓTELI Í KAUPMANNAHÖFN
BÍLALEIGA: RENTALCARS LOFAR LÆGSTA VERÐINU

Mynd: Túristi